Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrsti vitinn í meira en þrjátíu ár

31.07.2017 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýr viti verður tekinn í notkun við Sæbraut í Reykjavík fyrri hluta næsta árs. Ekki hefur verið reistur viti hér á landi í meira en þrjátíu ár. Vitinn tekur við af vitanum á Sjómannaskólanum sem ekki sést lengur frá sjó vegna þess að háhýsin, sem reist voru við Borgartún, skyggja á hann. Nýi vitinn verður við Sæbraut á svæðinu fyrir neðan Höfða.

Ennþá þörf fyrir vita

Innsiglingaviti hefur verið á Sjómannaskólanum í um 70 ár. Sigurbjörg Árnadóttir formaður Vitafélagsins var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir að ennþá sé mikil þörf fyrir vita og skiljanlega þurfi að reisa vita á Sæbraut. 

„Vitinn í Sjómannaskólanum, Mammon er löngu búinn að taka alla athygli af honum og þó að vitar séu að mörgum finnst óþarfi í dag þá eru þeir það ekki. Þeir eru ákveðið öryggistæki. Það er ekki langt síðan ég hlustaði á viðtal við norskan skipstjóra sem sagði að alltaf væru ákveðnir staðir við Noregsstrendur þar sem þeir treysta eingöngu á vitann.“

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að þó að tæknin sé komin um borð í skipin sé ennþá þörf fyrir vita. Þeir séu á ábyrgð okkar eins og önnur umferðarmerki. Umræða hafi verið hjá Vegagerðinni að leggja niður vita úti á landi en það sé vegna breyttra siglingaleiða. 

Óheimilt að byggja fyrir vita

Gísli segir að á sínum tíma, þegar gerðar voru skipulagsbreytingar á svæðinu við Borgartún, hafi augljóslega ekki verið skoðað hvaða áhrif háhýsin hefðu.  „Menn hugðu ekki að sér og byggðu of hátt og fóru fyrir vitann. Hluti af merkinu datt út og núna sést einungis einn geislinn á þessari mikilvægu siglingaleið. Vitinn er því nánast ónothæfur.“

Í lögum um vitamál segir að ekki megi byggja fyrir vita. Ef það er gert þá geti Vegagerðin látið rífa húsið á kostnað eiganda þess. „Við gerum ekki þá kröfu, að það verði gert.“

 „4. gr. Óheimilt er að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur [Vegagerðin] 1) látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu. “

Mynd með færslu
Sjómannaskólinn. Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Gunnarsson - Flickr.com

Nýi vitinn skemmtilegur áningastaður 

Gamli vitinn í Sjómannaskólanum er mjög merkilegur. Hann var settur upp fyrir 1940 við mikla athöfn og hann er mikilvægt kennileiti.

Yrki arkitektastofa ehf. sá um hönnun á nýja vitanum sem verður við Sæbrautina rétt fyrir neðan Höfða. Gísli segir að skipulagsferlinu sé að ljúka. Vitinn sjálfur verði smíðaður hjá Faxaflóahöfnum og fluttur á staðinn. Ljósabúnaðurinn komi frá útlöndum. Einnig sé verið að áætla hvað þurfi mikið magn af jarðvegi í fyllingu við Sæbraut og frágang vitans við ströndina.  

Gísli segir að vitinn verði líka skemmtilegur áningarstaður fyrir vegfarendur við Sæbraut. Hver ber kostnaðinn við hann? „Við munum bera kostnaðinn að hluta en eins og málið er vaxið þá reiknum við með því að Reykjavík komi eitthvað að þessu.“  Gera megi ráð fyrir að vitinn verði tekinn í notkun fyrri hluta næsta árs.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV