Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrsti bitcoin hraðbankinn á Íslandi

23.02.2018 - 20:34
Fyrsti hraðbankinn fyrir bitcoin hefur verið settur upp á Hlemmi Square hótelinu. Hótelstjórinn telur að um 60% af viðskiptavinum sínum noti bitcoin.

Fyrsti bitcoin hraðbankinn á Íslandi er að sögn hótelstjórans einn af þeim fyrstu í Evrópu. Þessi er reyndar þannig að það er bara hægt að leggja peninga inn á bitcoinreikninginn, með seðlum eða hverju sem er, en framtíðin býður væntanlega upp á að það verði hægt að taka peninga út lika. 

Rafmyntir, og þá sértaklega bitcoin, verða sífellt meira áberandi. Nokkuð hefur verið fjallað um gagnaverin og leitina að bitcoin, en þessi rafmynt er þegar í töluverðri notkun. Meðalaldur gesta á hótelinu er 25-27 ár.

„Ég myndi segja að um 60% krakkanna sem koma hingað, ég kalla þau krakka því er gamal karll,  ég held að um 60% þeirra noti rafmyntir,“ segir Klaus Ortlieb einn eigenda hótelsins.

Til að nota bankann opnar fólk  einfaldlega fyrir bitcoin-reikninginn í síma sínum, ber upp að hraðbankanum, setur peningaseðla í bankann og sér upphæðina færast inn á reikninginn. Þetta nýtist meðal annars ferðamönnum sem eru að fara úr landi, en eru enn með íslenska peninga á sér.

„Ég hef heyrt um marga sem þurfa að skipta peningunum á flugvellinum og greiða himinhá gjöld til bankanna og sumir taka þúsund eða tvö þúsund krónur með sér heim til minja. Nú geta þessir ferðalangar lagt þessar tvö þúsund krónur inn á bitcoin-reikningana sína  í stað þess að geyma þær úti í horni heima hjá sér, gleyma þeim eða greiða bönkunum á flugvellinum stórfé.“

Bankinn var formlega tekinn í notkun í kvöld og hann er ekki bara fyrir hótelgesti.

„Og ef fólk vill koma frá Akureyri tek ég þeim opnum örmum,“ segir Klaus Ortlieb.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV