Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrsta Stracta hótelið rís

09.02.2014 - 20:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrsta Stracta hótelið af tíu, sem fyrirhuguð eru víðs vegar um land, rís nú á Hellu. Hótelframkvæmdin er sú umfangsmesta á Suðurlandi um árabil. Áætlaður kostnaður við hótelið er rúmur einn og hálfur milljarður króna en það verður rúmir 4500 fermetrar.

Feðgarnir Hreiðar Hermannsson og Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, eru á bakvið Stracta hótelkeðjuna en þeir hafa síðustu ár rekið hótel í Kaupmannahöfn. Hótelið á Hellu er fyrsti áfanginn í uppbyggingu keðjunnar sem samkvæmt áætlun kostar hátt í 18 milljarða. „Þetta er fyrsta af tíu og hitt er bara í framtíðinni sko, fimm ár eða hvað það verður. Það er bara til að sjá heildarsýnina hvernig við byggjum upp skipulag á ferðaþjónustu  á Íslandi,“ segir Hreiðar Hermannsson. 

Nokkuð er síðan ráðist var í jafn umfangsmikla hótelbyggingu á Suðurlandi. „Já, þetta er örugglega það stærsta sem hefur verið hérna fyrir utan einhvern iðnað sko eða þá í landbúnaði eða svoleiðis. Þetta er örugglega langt stærst á þessa vísu í fjölda ára.“ Hreiðar segir að reynslan af hótelinu á Hellu muni ráða því hversu hröð uppbygging keðjunnar verður. Áætlaður heildarkostnaður eru 1.560 milljónir. Með hótelgarði sem er um 2500 fermetrar og hluti af afþreyingunni fer fram á staðnum.

Feðgarnir segja áhersluna á afþreyingu nýjung hér á landi enda markmiðið að fá gesti til að dvelja lengur en eina nótt. Framkvæmdir eru í fullum gangi við hótelið á Hellu en mikið verk er eftir óunnið áður en hægt verður að opna það í maí. Í öllu hótelþorpinu verður rými fyrir allt að 290 hótelgesti og hér munu að meðaltali starfa 40-50 manns. 

Þjónustubyggingingin er steypt og á tveimur hæðum en gistiálmurnar koma tilbúnar frá Reyðarfirði en þar voru þær notaðar á meðan unnið var að byggingu álversins. Nú fara þær á steypta sökkla og fá ný þök og innréttingar. „Þetta verður allt í toppstandi. Akkúrat eins og ef við hefðum keypt spýturnar í Byko eða Húso og sett þær saman á staðnum. Þetta er nákvæmlega sami hluturinn,“ segir Hreiðar. 

Útlit hótelsins hefur verið gagnrýnt á vefmiðlum og því líkt við amerísk vegamótel sem ekki eigi heima í íslenskri náttúru. „Það getur vel verið að það sé hægt að finna eitthvað svipað fyrirkomulag í Bandaríkjunum. Ég sé engan löst á því, ég held að þeir séu bara fínir í að byggja hótel, hvort sem það eru vegahótel eða önnur,“ segir Hreiðar.  „En ég er búinn að bera þetta undir nokkuð marga bæði náttúruverndarfólk, arkitekta og við erum með Björn Jóhannsson landslagsarkitekt. Og það er akkúrat það sem fólki fannst vera jákvætt við þetta er að þetta er lágt og fellur að viðkomandi stað.“

Þótt hótelið sé enn óklárað rataði það í desember inn á lista The Times yfir bestu nýju hótelin á þessu ári og segir Hermann það þegar hafa skilað sér í fyrirspurnum. „Þú ert kominn á vissan hátt á kortið þegar þú ert kominn í Times sem eitt af bestu hótelum, nýju hótelum á árinu 2014 í heiminum. Þannig að það var gríðarlega öflugt að fá þá umfjöllun,“ segir Hermann. Hann óttast ekki samkeppnina á svæðinu. „Það er spáð töluverðri aukningu á túrisma á næstu árum þannig að þetta er viðbót. Það er vöntun á gistingu og þær ferðaskrifstofur sem við erum í sambandi við erlendis þær sýna það, með þeirra mikla áhuga sem þeir sýna okkur. Þannig að við vitum að það er markaður fyrir þessu.“