Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrsta skóflustungan að gagnaveri á Blönduósi

23.05.2018 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fyrsta skóflustungan að gagnaveri á Blönduósi var tekin í dag. Í fyrstu verður um lítið gagnaver að ræða en framkvæmdastjóri Borealis Data Center segir mögulegt að byggja enn frekar upp á þessum stað.

Sveitarstjórnarmenn á Blönduósi hafa undanfarinn áratug reynt að laða gagnaver til sveitarfélagsins á lóð sem þar hefur verið tilbúin álíka lengi. Heimamenn voru því að vonum ánægðir í dag þegar fyrsta skóflustunga að gagnaveri Borealis Data Center var tekin á lóðinni.

„Þessi staður er mjög góður“

„Það er ljóst að staðsetningin hér á þessu svæði er mjög ákjósanleg fyrir gagnaver,“ segir Arnar Þór Sævarsson, sem nýverið lét af störfum sem bæjarstjóri á Blönduósi. „Hér er Blanda við túnfótinn og góðar tengingar varðandi raforku og ljósleiðaratengingar. Þannig að þessi staður er mjög góður.“

Áætla að hefja starfsemi fyrir lok sumars

Það er tæplega 700 fermetra hús sem þarna verður byggt, fyrra húsið af tveimur. Áætlað er að þar verði 2-3000 tölvur og Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri BDC, segir áformað að starfsemin hefjist fyrir lok sumars. „Markmiðið er í rauninni að koma á staðinn, byrja, og sýna fram á að það sé gott að vera hérna. Og halda svo áfram í kjölfarið.“

Alþjóðlegt fyrirtæki hafi mikinn áhuga á að stækka

Og náist að tryggja næga raforku sé vel mögulegt að stækka umtalsvert. „Við erum að vinna með alþjóðlegu gagnaversfyrirtæki og erum með erlenda kúnna sem eru að koma í þetta með okkur. Þeir hafa mikinn áhuga á að vaxa í kjölfarið. Og plönin eru að vinna með þeim í framhaldinu við að stækka hér,“ segir Björn.

Talsverð fjárhagsleg áhætta sveitarfélaganna

Áætlað er að húsið sem nú verður byggt kosti um 150 milljónir króna. Blönduósbær og Húnavatnshreppur fjármagna bygginguna ásamt Borealis Data Center í gegnum sameiginlegt félag, BDC North. Sveitarfélögin taka þar talsverða fjárhagslega áhættu. „Já, það er rétt, sveitarfélagið kemur aðeins að þessu,“ segir Arnar. „En það er fyrst og fremst fyrir þetta verkefni hér í dag. Þetta er fyrst og fremst undirbúningsverkefni, koma þessu af stað, og sýna fram á það að hér sé hægt að byggja og reka gagnaver.“