Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fyrsta sjálfstæða sýning Náttúruminjasafnsins

Mynd með færslu
 Mynd: ?? - ruv.is

Fyrsta sjálfstæða sýning Náttúruminjasafnsins

26.11.2018 - 16:08

Höfundar

Fyrsta sjálfstæða sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands, verður opnuð í Perlunni í Reykjavík á laugardaginn kemur, 1. desember, á 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

Löng saga 

Náttúruminjasafnið varð til árið 2007 þegar lög um safnið voru samþykkt, en á sér í raun mun lengri sögu sem rekja má allt aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Illa hefur hins vegar gengið að koma upp Náttúruminjasafni og sýningu í eigu þjóðarinnar sem sómi er að, líkt og flestar nágrannaþjóðir leggja metnað sinn í að starfrækja. Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni er einn fyrsti vísirinn að slíkri sýningu. Fyrir eru í Perlunni náttúrusýningar fyrirtækisins Perlu norðursins og tengist Vatnasýningin þeim. Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir er hönnuður og sýningarstjóri Vatnsins í náttúru Íslands. 

Völdu vatnskött sem gestgjafa 

„Ég var svo heppin að fá að vera með þeim á Náttúruminjasafninu í því að undirbúa þetta og ákveða efnið sem við ætluðum að taka fyrir. Svo vorum við með góðan hóp af sérfræðingum sem hjálpuðu okkur. Þannig að þetta varð niðurstaða stórs hóps vísindamanna og safnafólks að við myndum fjalla um þetta efni á fyrstu stóru sérsýningu Náttúruminjasafns Íslands.“

Hvernig byggirðu sýninguna upp? 

„Sýningin er byggð upp þannig að við hugsum hana bæði fyrir börn og fullorðna, Íslendinga og útlendinga. Það er oft talað um að maður eigi að miða við góðan skilning 12-14 ára barna. Við beinum þessu töluvert að börnum. Þannig að þegar gestir koma inn á sýninguna þá tekur á móti þeim lirfa fjallabjöllu, stækkuð upp í 4 metra lengd. Hún er í raun aðeins um 1 cm að stærð.  Lirfan er kölluð vatnsköttur - water tiger á ensku. Krakkarnir mega príla upp á köttinn og koma sína eigin leið inn á sýninguna. Svo leiðbeinir hann þeim í gegnum alla sýninguna.“  

Allt sem við kemur vatni í náttúrunni 

„Við tökum fyrir allt mögulegt sem við kemur vatni í sem víðustum skilningi. Við byrjum á að fjalla um auðlindina vatnið, um Íslandslindir þar sem sjá má nýtt kort af lindasvæðum Íslands. Við fjöllum um lindarvatn, dragvatn, jökulvatn og heita vatnið. Við erum með sýnishorn sem að safnakennarar geta sýnt gestum. Hversu jökulvatnið er gruggugt, en lindarvatnið tært. Við erum með rauntímamæla sem eru beintengdir við Veðurstofu Íslands. Við sýnum rauntímarennsli í ansi mörgum ám á landinu. Þar getur þú ýtt á punkt og fengið upp stöðuna hvernig rennsli er í tiltekinni á, t.a.m. Brúará í dag. Við erum með fleira sem er beintengt við Veðurstofuna, eins og veður dagsins. Það er hægt að fræðast um árstíðabundið veður og einstaka viðburði alveg frá upphafi mælinga s.s. stórflóð, rigningar, aurskriður og allt mögulegt. Svo er hægt að horfa út og gá til veðurs, kynnast orðum og hugtökum um veður og ský. Við erum með skemmtilegan skýjaleik fyrir krakka og margt fleira.“

Allir nafngreindir fossar á einum vegg

Það fylgir þessari sýningu heilmikil tækni? 

„Já. Við fengum tvö frábær margmiðlunarfyrirtæki til liðs við okkur. Annars vegar Gagarín, sem er íslenskt fyrirtæki, og hins vegar Art+Com sem er sambærilegt fyrirtæki í Berlín. Þau hafa verið með okkur í að þróa þetta allt saman.“

Svo falla hér niður vegg nánast allir fossar landsins? 

„Já allir nafngreindir fossar á landinu fossa þarna niður og varpast á tjald og það er hægt að ganga upp smá brekku og fara á bak við fossinn. Þar er hægt að fá tekna af sér mynd. Það gengur allt út á það núna að taka af sér myndir eða af börnunum.“ 

Vantar náttúruminjasafn

Nú eru aðeins nokkrir dagar í sýningaropnun og hún tengist fullveldisafmælinu. Er þetta ekki stór stund? 

„Þetta verður stór stund og gaman að fá tækifæri til að gera þetta. Fjárveitingin til safnsins tengdist þessum hátíðisdegi þannig að við reynum að standa okkur og opna á honum.“

Nú er oft talað um að náttúruminjasöfn séu stolt flestra þjóða, en þetta safn hefur vantað hér á landi?

„Þetta safn vantar algjörlega á Íslandi, eins og náttúran okkar er stórkostleg. Það sem við erum að gera hér er aðeins lítill hluti. Já það er kominn tími til og þetta er fyrsta stóra sérsýningin. Síðan verður vonandi byggt stórt og veglegt náttúruminjasafn. Þar liggur fyrir þarfagreining og undirbúningur að því safni er í vinnslu. En á meðan höfum við þetta.“

Og þessi sýning tengist öðrum náttúrusýningum hér í Perlunni? 

„Já. Sýningin er sérstök, en tengist hinum. Aðrar sýningar fjalla t.d. um eldvirknina, hafið, jöklana og ísinn. Og hér komum við inn með vatnið.“ 

Ánægð með sýninguna

Hlakkar þú til?  

„Ég hlakka mikið til. Það er gaman að vera búinn og þetta er búið að vera afskaplega skemmtilegt ferli. Eins og ég segi þá hafa mjög margir komið þessu, vísindamenn og hönnuðir af ýmsu tagi. Við höfum öll lagst á eitt til að landa þessu. Við erum bara ánægð með okkur verð ég að segja,“ segir Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningarstjóri Vatnsins í náttúru Íslands, sýningar Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni í Reykjavík. Sýningin verður opnuð á fullveldisdaginn 1. desember.