Fyrsta Íslandsheimsóknin var á Snæfellsnes

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fyrsta Íslandsheimsóknin var á Snæfellsnes

17.06.2018 - 16:00

Höfundar

„Guðni sótti mig upp á flugvöll seint um kvöldið og keyrði mig reyndar strax á Snæfellsnes,“ segir Eliza Reid forsetafrú um fyrstu Íslandsheimsóknina. Hún kom fyrst til landsins árið 1999 dvaldi parið mest á Snæfellsnesi í það skiptið.

Guðni og Eliza kynntust í námi í Englandi árið 1998 þar sem þau lögðu bæði stund á framhaldsnám í sagnfræði. „Við vorum saman í róðrarliði í Oxford, og það var veisla eitt kvöldið til að safna pening fyrir liðið,“ segir hún. Róðrarliðin stóðu fyrir leik sem var þannig að konurnar áttu að setja nöfn sín í bolla hjá karlmönnunum, sem síðan drógu út miða með nafni og buðu síðan eiganda miðans út að borða.

„Ég keypti tíu miða, ég var svolítið rík það kvöld, veit ekki alveg hvað ég var að hugsa,“ segir Eliza sposk. „Ég var hrifin af Guðna, fannst hann áhugaverður og maður getur ekki alltaf látið örlögin stýra – þannig að ég setti bara átta miða í bollann hans“. Hún bætir við að hún hafi ekki viljað setja alla tíu, henni hafi þótt það full langt gengið. „En auðvitað dró hann nafnið mitt,“ bætir hún við.

Þau fóru í framhaldinu út að borða og Eliza segir að það hafi ekki endilega verið ást við fyrstu sýn en þá frekar áhugi við fyrstu sýn. „Hann er auðvitað mjög klár og góð manneskja og fyndinn,“ segir hún.

Vissi að Reykjavík var höfuðborgin

„Ég kom fyrst árið 1999,“ segir hún um fyrstu Íslandsheimsóknina. „Ég var í stopover, áður en það var í boði að taka stopover á Íslandi,“ útskýrir Eliza. „Guðni sótti mig upp á flugvöll seint um kvöldið og keyrði mig reyndar strax á Snæfellsnes. Við vorum þar í yfir þrjá daga. Bara á Snæfellsnesi. Ég var bara varla í Reykjavík í þeirri fyrstu heimsókn.“

Aðspurð segist hún ekki hafa vitað mikið um Ísland þegar þau Guðni kynntust. „Ég vissi að Reykjavík var höfuðborgin og ég þekkti fánann,“ segir hún og bætir við að þar hafi það verið upp talið. „Ég hélt örugglega að það væri svipaður mannfjöldi og í Danmörku, ég vissi ekki að það væri mun færra fólk hér,“ bætir hún við. 

Eliza Reed var í viðtali við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2 þann 17. júní klukkan 12:40.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bað um humar með ást