Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrsta hollið á Iceland Airwaves 2020 kynnt

Mynd með færslu
 Mynd: Alexander Matukhno - Iceland Airwaves

Fyrsta hollið á Iceland Airwaves 2020 kynnt

13.02.2020 - 10:00

Höfundar

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram 4. - 7. nóvember í ár. Meðal erlendra listamanna sem koma fram á hátíðinni eru Courtney Barnett, Black Pumas og Metronomy auk þess sem Benni Hemm Hemm snýr aftur á hátíðina eftir langt hlé.

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur kynnt til leiks fyrsta holl listamanna sem koma fram á hátíðinni í ár. 

Alþjóðlegu listamennirnir sem koma fram í ár eru meðal annarra hin ástralska Courtney Barnett, sem kemur fram tvö kvöld í Fríkirkjunni ein á sviði. Einnig er vert að nefna hljómsveitina Black Pumas, sem hlaut tilnefningu til Grammy-verðlauna sem besta nýja hljómsveitin og er samkvæmt tilkynningu hátíðarinnar ein heitasta hljómsveitin í dag. Breska bandið Metronomy kemur einnig fram en hún hefur notið vinsælda í rúman áratug og er þekkt fyrir fjörmikla tónleika.

Íslensku böndin í ár eru meðal annarra Daughters of Reykjavik (áður Reykjavíkurdætur), Benni Hemm Hemm kemur fram í fyrsta sinn í mörg ár og einnig Sin Fang. Júníus Meyvant kemur tvisvar sinnum fram á hátíðinni, annars vegar með hljómsveitinni sinni og hins vegar einn á sviði.

Indí rokk verður fyrirferðarmikið á hátíðinni í ár, þar má nefna sveitirnar Oyama, Squid, Dry Cleaning, The Murder Capital, BSÍ og Pale Moon. Framtíðarpoppið mætir líka en K.óla, Tami T, gugusar, Dorian Electra og Lynks Afrikka koma fram. Þess ber að geta að Lynks Afrikka hefur fengið meðmæli frá engum öðrum en Elton John, sem segir sveitina eina þá bestu á árinu 2020, Tami T hefur lengi unnið og túrað með Fever Ray og gugusar er ung og efnileg raftónlistarkona frá Íslandi.

Heildarlisti yfir tónlistarfólk og sveitir sem hafa verið bókaðar á hátíðina ár:

ADHD // Andavald // Andy Svarthol // Benni Hemm Hemm // Black Pumas (US) // BSÍ // Chlobocop (UK) // Courtney Barnett (solo) (AU) // Daughters of Reykjavík // dj. flugvél og geimskip // Dorian Electra (US) // Dry Cleaning (UK) // Erika de Casier (DK) // GRÓA // gugusar // Halldór Eldjárn // Júníus Meyvant // Kiriyama Family // K.óla // Krummi // Lynks Afrikka (UK) // Metronomy (UK) // MSEA // Myrkvi // omotrack // Oyama // Pale Moon // Sólveig Matthildur // S.hel // Sin Fang // Sinmara // Squid (UK) // Tami T (DE) // The Murder Capital (IE).