Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta hljóðritun á jólasöng eftir Jónas Hallgrímsson

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia

Fyrsta hljóðritun á jólasöng eftir Jónas Hallgrímsson

23.12.2019 - 09:22

Höfundar

Ríkisútvarpið hefur látið hljóðrita jólasöng sem Jónas Hallgrímsson orti á dönsku fyrir barnaball í Reykjavík árið 1829. Skólakór Kársness syngur kvæðið við lag eftir Mozart, en það er í fyrsta skipti sem söngurinn er hljóðritaður.

Í handritum Jónasar Hallgrímssonar má finna kvæði á dönsku sem heitir „Julesang for børn ved bal 1829“ eða „Jólasöngur fyrir börn á dansleik 1829“. Greinilegt er að kvæðið hefur verið samið fyrir barnaball um jólaleytið og þar sem Jónas var í Reykjavík á þessum tíma er líklegast að þar hafi ballið verið haldið. Ástæðan fyrir því að kvæðið var ort á dönsku er vafalaust sú að dönsk áhrif voru mikil á þessum tíma í Reykjavík. Danir réðu fyrir Íslandi, valdastéttin í Reykjavík var að miklu leyti dönsk og jafnvel það yfirstéttarfólk sem var íslenskt að uppruna talaði dönskuskotið. Að líkindum hefur jólaballið verið fyrir börn dönsku yfirstéttarinnar og kannski einhver íslensk heldri manna börn sem kunnu dönsku.

Mynd: Kolbrún Vaka Helgadóttir / Kolbrún Vaka Helgadóttir

Ekki kemur fram í handriti Jónasar við hvaða lag kvæðið var sungið. Hins vegar er til lag sem hæfir hætti ljóðsins nákvæmlega og gæti vel hafa verið upprunalega lagið, tímans vegna. Það er lagið „Sehnsucht nach dem Frühling“, einnig kallað „Komm lieber Mai“, eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Mozart samdi þetta lag síðasta árið sem hann lifði, 1791, og það varð snemma vinsælt. Þó að tónlistarlíf á Íslandi væri takmarkað á fyrri hluta 19. aldar voru lög Mozarts farin að berast hingað, til dæmis hafði Bjarni Thorarensen ort ljóð við menúett eftir hann. Því var ákveðið að hljóðrita „Julesang for børn ved bal 1829“ við þetta lag. Skólakór Kársness syngur undir stjórn Sunnu Karenar Einarsdóttur, en Matthías Harðarson leikur á píanó.

Jólastjarnan kyrrláta

Ljóð Jónasar hefur aldrei verið þýtt yfir á íslensku í bundnu máli. Fyrstu tvö erindi kvæðisins eru á þessa leið:

Festlige, favre dage
så fulde’ af munterhed,
I svandt! I svandt så fage
og sank i vesten ned!
Nu stimle’ op af østlige vover
alle stjerner små,
de vil mens dagen sover
danse på himlens blå.

Men julens stille stjerne,
den står i delte sky
og smiler fra det fjerne
henover land og by,
langt udi østerlande
den søger på bjerg og skov
og vil over hytten stande
hvor julebarnet sov.

Í lauslegri þýðingu hljómar texti þessara erinda þannig: „Hátíðlegu fögru dagar, fullir af kæti. Þið hurfuð, svo fagrir, og hniguð í vestri. Upp af austurbylgjum svífa nú allar litlu stjörnurnar, meðan dagurinn sefur ætla þær að dansa á himninum bláa. En jólastjarnan kyrrláta sem brosir uppi á himninum yfir sveit og bæ, hún svífur yfir fjöll og skóg til Austurlanda og ætlar að staðnæmast yfir kofanum þar sem jólabarnið svaf.“

Hljóðritunin af „Julesang for børn ved bal 1829“ verður flutt í þættinum „Jól með Jónasi Hallgrímssyni“ á aðfangadag kl. 16.05, en þar verða einnig lesin fleiri ljóð og textar eftir Jónas sem tengjast jólum og áramótum.