Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrsta COVID-19 tilfellið sunnan Sahara

28.02.2020 - 04:46
epa04615725 Motorists drive on a motorway in Lagos, Nigeria, 11 February 2015. Nigeria is Africa's most populous country and the continents fast growing economy.  EPA/AHMED JALLANZO
Lagos, höfuðborg Nígeríu. Mynd: EPA
Ítalskur ríkisborgari sem ferðaðist frá Mílanó til Lagos í Nígeríu er fyrsti maðurinn til að greinast með veiruna í Afríkuríki sunnan Sahara. Tvö önnur tilfelli hafa greinst í Afríku, annað í Egyptalandi og hitt í Alsír.

Heilbrigðisráðherrann Osagie Ehanire segir á Twitter að tilfelli sjúklingsins í Nígeríu sé vægt, og honum sé haldið á smitsjúkdómasjúkrahúsi í Lagos. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði við því fyrr í vikunni að heilbrigðiskerfi Afríkuríkja væru illa búin til þess að takast á við veiruna ef hún nær bólfestu í álfunni. Ehanire segir stjórnvöld í Nígeríu hafa unnið ötullega að því að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar hratt og vel. Þegar sé byrjað að finna alla þá sem sjúklingurinn hafi verið í sambandi við síðan hann kom aftur til Nígeríu í vikunni. 

Yfir 650 tilfelli hafa greinst á norðanverðri Ítalíu. Þar eru vinsæl skíðasvæði sem ferðamenn flykkjast oft að á þessum árstíma.