Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fyrst til að verða fullgilt Eden-heimili

17.01.2014 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Öldrunarheimili Akureyrar varð í dag fyrst íslenskra hjúkrunarheimila til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu sem fullgilt Eden-heimili. Þar er lögð áhersla á heimilislegt umhverfi og að íbúarnir séu ekki alltaf í hlutverki þiggjandans heldur fái tækifæri til að gefa af sér.

Eden-stefnan er alþjóðleg hugmyndafræði sem dvalarheimili víða um heim vinna eftir. Samkvæmt henni er talið þýðingarmikið að öldrunarheimili séu heimili þeirra sem þar búa og áhersla lögð á sjálfræði íbúa og einstaklingsmiðaða þjónustu. Í tilkynningu frá Öldrunarheimili Akureyrar kemur fram að innleiðing Eden-hugmyndafræðinnar hafi hafist árið 2006 með breytingum á húsakynnum. Hvatt hafi verið til dýrahalds og samstarf við skóla og ýmis konar félagasamtök aukið. 

Hrefna Brynja Gísladóttir, iðjuþjálfi á Öldrunarheimilum Akureyrar, segir gefandi að taka þátt í þessu ferli. Mikið sé lagt upp úr því að virkja heimilisfólkið sjálft. „Að það megi viðhalda færni sinni. Að við lítum á styrkleika þeirra en ekki bara veikleika og sjúkleika af því það dregur úr lífskraftinum heldur er þetta til þess að það geti lifað lífi sem vert er að lifa þrátt fyrir sjúkdóma, þrátt fyrir minnkandi færni og þverrandi heilsu.“

Lögð er áhersla á að gæða heimilið lífi, til dæmis með gæludýrum og samstarfi við skóla og félagasamtök. Þá er mikið lagt upp úr því að íbúarnir geti sjálfir orðið að gagni á heimilinu. „Það gefur íbúunum tækifæri til þess að vera þátttakandi í lífinu ekki alltaf bara þiggjandi frá starfsfólki heldur að það geti líka tekið þátt í því að miðla og það skiptir öllu máli fyrir aldrað fólk og okkur öll að finna að við gerum gagn.“