Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Fyrst og fremst gróðrarstía misnotkunar”

03.07.2019 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stéttarfélagið Efling hefur stefnt starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu og fyrirtækinu Eldum rétt, til greiðslu skaðabóta vegna nauðungarvinnu starfsmanna. Framkvæmdastjóri Eflingar segir starfsmannaleigur gróðrarstíu misnotkunar á verkafólki.

Eldum rétt hafnar kröfunum

Málið snýst um meðferð Manna í vinnu á fjórum rúmenskum verkamönnum. Eldum rétt leigði starfsmennina af starfsmannaleigunni í janúar og bar þannig ábyrgð á kjörum og réttindum þeirra. Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir í viðtali við Stundina að hann hafi haldið að allt yrði upp á tíu hjá Mönnum í vinnu eftir umfjöllun Kveiks um málið í október. Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hafi fullyrt það í janúar. Eldum rétt hafnar kröfum Eflingar, en stefnan var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag, þar sem gerðar eru kröfur um skaðabætur og að öxluð verði ábyrgð á að brotið hafi verið á starfsmönnum. 

Hannað til að brjóta á verkafólki 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að stéttarfélagið sendi þau skýru skilaboð til þeirra sem fá þjónustu starfsmannaleiga, að þeir beri ábyrgð á starfsmönnum sínum. Hann segir starfsmannaleigur beinlínis hannaðar til þess að auðvelda og fela réttindabrot gegn verkafólki. 

„Og við erum tilbúin að sækja það af fullri hörku fyrir dómi í samræmi við ákvæði laga um keðjuábyrgð,” segir Viðar. 

Hvetur fyrirtæki til að sniðganga starfsmannaleigur

Varðandi fjárhæð skaðabótakröfunnar segir Viðar hana ekki setja neitt fyrirtæki á hausinn, heldur muni hún bæta fyrir ákveðin brot sem framin voru á starfsmönnunum. Þá hvetur hann fyrirtæki til að ráða starfsfólk beint og sniðganga starfsmannaleigur. 

„Sem ég held að reynslan sýni að er fyrst og fremst gróðrarstía misnotkunar og þess að narra hingað til lands fólk frá efnahagslega verr stæðum svæðum með gylliboðum. Og notfæra sér svo aðstöðu þeirra með ýmsum leiðum sem við höfum séð í þessari harmsögu sem þetta mál varðandi Menn í vinnu því miður er,” segir Viðar. 

Forsvarsmenn Manna í vinnu höfðu áður gefið út að þau hyggðust stefna forsvarsmönnum Eflingar, en samkvæmt Viðari hefur engin slík stefna borist.  

Tilkynningu Eflingar um málið má sjá hér.