Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrst Bubbi gat það get ég það líka

Mynd: Borgarleikhús / Borgarleikhús

Fyrst Bubbi gat það get ég það líka

13.03.2020 - 11:19

Höfundar

„Augljósa leiðin hefði kannski verið að gera ekki sögu Bubba heldur sögu stráks út á landi eða hvað það er. En þegar ég las ljóðabækurnar fannst mér kominn undirtextinn, opnun í undirmeðvitundina, samfelldur bogi og dramatík, því það verður alltaf að vera dramatík,“ segir Ólafur Egill Egilsson leikstjóri söngleiksins Níu líf sem byggður er á ævi Bubba Morthens.

Söngleikurinn verður frumsýndur á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld. Ólafur Egill er jafnframt höfundur verksins en söngtextar Bubba gegna þar stóru hlutverki. 

Verkið endurspeglar mismunandi skeið í lífi tónlistarmannsins, að sögn Ólafs. „Við erum með níu Bubba. Þeir standa fyrir ákveðin tímabil í lífi Bubba en líka ákveðin element í honum og þá sammannleg element. Einn þeirra er Egó-Bubbi og er fullur af hroka og annar er fjórtán ára og reiður af því að það var brotið á honum. Þetta er leið til að formgera það sjá þessi átök. Hvað finnst Gúanó-Bubba um Góðæris-Bubba? Hann hefur skoðun á því?“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Egill Egilsson.

Með hlutverk Bubba í sýningunni fara Aron Már Ólafsson, Björn Stefánsson, Esther Talia Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Valur Freyr Einarsson.

Slapp lifandi

Halldóra fer með hlutverk Bubba á Egótímabilinu. „Ég er rosa glöð að fá að leika Bubba. Og að það séu bæði karlar og konur sem leika hann held ég að sé mikilvægt því við erum öll bæði einhvern veginn. Þetta er áhugavert,“ segir hún.

Bubbi sjálfur segir verkið raunsætt. „Þetta eru allt kaflar sem ég hef farið í gegnum. Sumir eru óþægilegir, sumir fallegir. Sumir vekja ljúfsárar minningar. Þeir hafa gert mig ef eitthvað er ríkari. Ég slapp lifandi úr þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bubbi Morthens.

Aðspurður segist Ólafur hafa lagt áherslu á sanna nálgun sem Bubbi tók undir. „Ég var svolítið hikandi í byrjun og spurði: Er eitthvað sem þú vilt að ég snerti ekki á eða fara í og hann sagði: Nei, ekkert. Ég ætla ekki að skipta mér af að neinu leyti nema að þú hlífir mér ekki. Þú verður að hjóla í mig. Engin miskunn.“

Hann segir fallegan boðskap að finna í ævi Bubba sem verkinu sé ætlað að miðla. „Ég vona að fólk sem sér sýninguna og horfir á hans sögu hugsi: Já, fyrst að Bubbi gat það get ég það líka. Bubbi er svona dæmisaga um hvað þú getur.“

Ekki eftirhermuleikrit

Bubbi er sáttur við útkomuna enda sáttur við fortíðina. „En ég fæ aulahroll. Og hugsa vá, já, vá, en svo hugsa ég: Einmitt. Svona var ég. Það er voða lítil lygi þarna. Þetta er sleggja, þetta er ótrúlega flott.“

Það er mikilvægt í verkefni af þessum toga að bera virðingu fyrir viðfanginu með því að bjaga hvorki né ýkja, að sögn Halldóru. „Ekkert okkar er að herma eftir honum, þetta er ekki eftirhermuleikrit, þetta er sköpunarkraftsleikrit. Því það sem Bubbi kann, sem er svo aðdáunarvert, er að stinga beint í samband við sköpunarkraftinn. Það streymir beint í gegnum hann burtséð frá öllu. Það finnst mér markmiðið, að finna hvernig hann streymir í gegnum okkur.“

Nánari upplýsingar um Níu líf má finna hér.