Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrrverandi forseti Egyptalands dó í réttarsal

17.06.2019 - 16:13
epa05070891 Deposed Egyptian President, Mohamed Morsi, attends his trial on charges of espionage, Cairo, Egypt, 16 December 2015. Morsi is charged with allegedly leaking classified documents related to national security to Qatar in exchange for payments.
Mohamed Morsi. Mynd: EPA
Mohammed Morsi, sem kosinn var forseti Egyptalands eftir byltinguna 2011 þar sem einræðisherranum Hosni Mubarak var steypt af stóli, lést í réttarsal í dag 67 ára að aldri.

Hann var fyrir dómi í Kaíró vegna ákæru fyrir njósnir, vegna meintra samskipta hans við palestínsku samtökin Hamas, þegar það leið yfir hann og hann lést skömmu síðar að því segir í fréttum egypskra ríkismiðla.

Morsi var við völd í eitt ár, frá júní 2012 til júlí 2013. Hann varð fyrsti lýðræðislega kosni forseti Egyptalands ári eftir gríðarleg mótmæli í landinu, sem mörkuðu endalok 30 ára valdatíðar Mubaraks.

Honum var steypt af stóli í valdaráni hersins eftir mikil mótmæli og núverandi forseti, herforinginn Abdel Fattah el-Sisi, tók völd í landinu.

Morsi tilheyrði samtökunum Múslimska bræðralagið, sem bönnuð voru eftir valdarán hersins. Hann stóð frammi fyrir sex réttarhöldum og var dæmdur í 20 ára fangelsi vegna dauða mótmælanda árið 2012. Auk þess hlaut hann lífstíðardóm fyrir njósnir fyrir Katar.

Æðsti dómstóll Egyptalands felldi lífstíðardóminn úr gildi fyrir þremur árum og fyrirskipaði ný réttarhöld.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan var fyrstur þjóðarleiðtoga til að votta honum virðingu sína og lýsti honum sem píslarvotti. Þeir áttu náið samstarf í valdatíð Morsi. Samskipti Tyrkja og Egypta hafa versnað til muna eftir að el-Sisi komst til valda.