Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fyrrum þingmaður hættir í Framsóknarflokknum

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þorsteinn Sæmundsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, hefur sagt skilið við flokkinn. Þorsteinn greindi frá þessu í fréttatilkynningu í morgun.

Þorsteinn bauð sig fram í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjör­dæmi norður í fyrra, en laut í lægra haldi fyrir Karli Garðarsyni.

Þorsteinn segist hafa varið við því á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins að steypa flokknum í formannskjör korteri fyrir kosningar. Á það hafi ekki verið hlustað, og flokkurinn beðið sinn versta ósigur í 100 ár. Síðan hafi lítið sem ekkert verið gert til að græða sár eða auka samstöðu, að sögn Þorsteins. „Í aðdraganda kosninga hefur sá hópur sem nú stjórnar flokknum ákveðið að ganga milli bols og höfuðs á þeim ,,háværa minnihluta” sem varð undir á síðasta flokksþingi. Markmiðið virðist vera að losa sig við fyrrum formann flokksins og þá sem stutt hafa hann dyggilegast. Þetta markmið hefur tekist,“ segir Þorsteinn.

Hann hafi því tilkynnt úrsögn sína úr Framsóknarfloknum. Þorsteinn þakkar fólki í Framsóknarflokknum sem hann hefur starfað mest með fyrir samstarfið og samveruna og segist vonast til að hitta það sem flest fyrir á nýjum vettvangi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tilkynnti í gær að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í framboð fyrir flokkinn í komandi kosningum. Þess í stað ætlar hann að mynda nýtt stjórnmálaafl.