Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrirtaka í máli Jóns Baldvins gegn dóttur sinni og RÚV

07.01.2020 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur tók í morgun fyrir mál Jóns Baldvins Hannibalssonar á hendur dóttur hans, Aldísi Schram og Sigmari Guðmundssyni, dagskrárgerðarmanni á RÚV. Hann krefst þess að ummæli sem voru látin falla í viðtali við Aldísi í Morgunútvarpinu á Rás 2 17. janúar 2019 verði gerð dauð og ómerk. Sigmar er krafinn um tvær og hálfa milljón króna í miskabætur.

Í viðtalinu fullyrti Aldís að Jón Baldvin hefði nýtt sér aðstöðu sína sem sendiherra með því að skrifa bréf á bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington og óskað eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Í viðtalinu lýsti Aldís því að lögregla hafi brotið sér leið inn á heimili hennar árið 1998, ásamt lækni og einum ættingja, að því er virtist að nauðsynjalausu. Læknir og lögregla hafi svo yfirgefið húsið. Hún hafi ekki vitað fyrr en síðar, þegar hún las lögreglugögn, að þetta hafi verið flokkað sem aðstoð við erlent sendiráð.

Lögmaður Aldísar, Gunnar Ingi Jóhannsson, lagði fram ýmis gögn við fyrirtökuna í héraðsdómi morgun og mótmælti Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Jóns Baldvins, framlagningu hluta þeirra. Þar sem tíminn við fyrirtökuna var knappur lagði dómari til að lögmennirnir myndu reyna að leysa úr ágreiningi um framlagningu gagna sín á milli áður en næsta þinghald fer fram 10. febrúar. Takist það ekki fer það mál til dómara. 

Jón Baldvin var utanríkisráðherra frá 1988 til 1995 og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum 1998 til 2002 og í Finnlandi 2002 til 2005. Fjölmiðlar hafa fjallað um frásagnir kvenna af ósæmilegri hegðun hans og áreitni. Elstu sögurnar eru um 50 ára.