Fyrirtæki stofnað utan um tökur Furious 8 hér

Fyrirtæki stofnað utan um tökur Furious 8 hér

09.01.2016 - 16:35

Höfundar

Framleiðslufyrirtækið Truenorth hefur stofnað fyrirtæki hér á landi til að halda utan um tökur á áttundu myndinni úr Fast & Furious-myndaflokknum. Fyrirtækið, sem nefnist FF8 Iceland ehf., var stofnað um miðjan síðasta mánuð samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu 5. janúar síðastliðnum.

Tilgangur félagsins er „framleiðsla á kvikmyndum og önnur starfsemi en félagið er stofnað með vísan í lög um tímabundna endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi,“ eins og það er orðað.  Á Íslandi fá kvikmyndagerðarmenn 20 prósent af framleiðslukostnaði endurgreiddan – fyrir árið 2014 nam sú upphæð 1,5 milljörðum króna.

Fram kom í síðustu viku að tökulið myndarinnar hefði augastað á Íslandi fyrir myndina ásamt Kúbu og Rússlandi. Heimildir fréttastofu herma að aðstandendur myndarinnar hafi skoðað heppilega tökustaði og að koma þeirra hingað til landsins verði endanlega staðfest í næstu viku.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að tökurnar verði töluvert umfangsmiklar – Fréttatíminn greindi meðal annars frá því fyrir helgi að Truenorth væri að leita að skrifstofuhúsnæði fyrir aðstandendur einnar stórmyndar.  

Með aðalhlutverkið í myndunum fer harðhausinn Vin Diesel og hann þekkir vel til íslenskra leikara – það fór vel á með honum og Ólafi Darra við tökur á kvikmyndinni The Last Witch Hunter. 

One from the film set this week, with my friend Darri...Excited, inspired and Blessed to be working with such a great cast of actors.

Posted by Vin Diesel on 5. október 2014

Fast & Furious-myndaflokkurinn er mikill gullkálfur í kvikmyndaborginni – síðasta myndin naut fádæmra vinsælda og þénaði rúmar 350 milljónir dollara í miðasölu.

Ísland hefur verið vinsæll tökustaður hjá Hollywood síðustu ár. Tökur fyrir tvær Star Wars-myndir fóru til að mynda fram hér á landi á síðasta ári – The Force Awakens og Rogue One.  

Þá hefur Ísland einnig verið notað í sjónvarpsþáttum – tökulið Game of Thrones hefur ítrekað sótt landið heim, Netflix-þáttaröðin Sense8 var að hluta til gerð hér á landi og til stendur að breyta Reyðarfirði í heimskautabæinn Fortitude á ný fyrir samnefnda sjónvarpsþætti Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

 

Tengdar fréttir

Mynd með færslu

Tökulið Furious 8 skoðar tökustaði á Íslandi