Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fyrirkomulagið komi frá fyrri ríkisstjórn

28.06.2014 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir aðfinnslur Ríkisendurskoðunar um úthlutun styrkja ekki nýjar af nálinni. Fyrirkomulag styrkveitinga ráðuneytisins hafi komið frá fyrri ríkisstjórn. Styrkheimildin hefur verið felld niður.

Forsætisráðuneytið úthlutaði hátt í 500 milljónum króna af svokölluðum safnliðum fjárlagaárin 2012 til 2014. Þar af úthlutaði núverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 205 milljónum króna í desember 2013. Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt framkvæmdina við styrkveitingarnar. Flest verkefnanna sem hlutu styrk í lok árs í fyrra gátu sótt um styrk úr lögbundnum sjóðum, en samkvæmt tilkynningu Alþingis frá 2011, má ekki veita styrki af safnliðum til verkefna sem geta sótt í slíka sjóði. Þá eru engar samræmdar verklagsreglur um styrkveitingar í forsætisráðuneytinu, sem að mati Ríkisendurskoðunar eykur hættu á að þær verði ógagnsæar, ófaglegar og gangi gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. 

Segir fyrirkomulagið koma frá fyrri ríkisstjórn

Ríkisendurskoðun gagnrýnir sérstaklega að styrkir hafi ekki verið auglýstir opinberlega, heldur voru styrkþegar valdir af forsætisráðherra. Samkvæmt regluverki Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sá ráðherranefnd um atvinnumál um úthlutun styrkjanna. Þá voru styrkirnir ekki heldur auglýstir opinberlega. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forstætisráðherra segir gagnrýni Ríkisendurskoðunar ekki nýja af nálinni. „Þetta snýst um hvaða aðferðir eru notaðar og er ekki ný umræða heldur hefur átt sér stað milli Ríkisendurskoðunar og ráðuneyta eða framkvæmdavaldsins um nokkurt skeið.“ Hann segir fyrirkomulag forsætisráðuneytisins við úthlutun styrkja komið frá fyrri ríkisstjórn. „Þarna var hins vegar ákveðið fyrirkomulag sem að við tókum við frá síðustu ríkisstjórn og hefur síðan verið lagt af að okkar frumkvæði.“

Sigmundur Davíð vildi ekki tjá sig að öðru leyti, en vísar í fréttatilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.