Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fyrirhuguðum verkföllum aflýst

01.04.2019 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrirhuguðum verkföllum starfmanna hótela og hópbifreiðafyrirtækja hjá Eflingu og VR hefur verið aflýst. Verkföllin áttu að hefjast miðnætti á miðvikudag. Verkfall vagnstjóra Srætó heldur áfram á morgun. Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við fréttastofu.

„Þetta er til marks um það að við teljum að það sé kominn grundvöllur að samningum,“ segir Viðar.

 

„Nokkuð fjölmennur hópur úr samninganefnd Eflingar var hér í húsakynnum ríkissáttasemjara í kvöld og í þeim hópi var sátt um þennan grundvöll“. Hann vill ekki greina nánar frá því hvað er í samningnum en segir að það verði kynnt á morgun. Á vef Eflingar segir auk þess að að árangur hafi náðst í samningaviðræðum sem verði kynntur nánar á morgun.  Verkföllum hjá Almenningsvögnum Kynnisferða, þ.e. bílstjórum Strætó, hefur enn ekki verið aflýst en starfsmenn þar funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins í fyrramálið.

Sáttafundur verkalýðsfélaganna sex og Samtaka atvinnulífsins hefur staðið yfir í húsakynnum ríkissáttasemjara frá því klukkan tíu í morgun. Fjölmiðlum var vísað út á sjöunda tímanum en forseti ASÍ, samninganefnd Eflingar og forysta starfsgreinasambandsins mættu þá til fundarins. 

Formaður VR sagði í kvöldfréttum sjónvarps að gerð yrði hörð atlaga að því á fundinum að ná samningnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru samningar að takast. 

Fréttin hefur verið uppfærð.