„Fyrir fjórum árum hefði ég kveikt í mér“

Mynd: Emilía Kristín / Facebook

„Fyrir fjórum árum hefði ég kveikt í mér“

23.07.2017 - 12:45

Höfundar

„Ofsakvíði getur verið herfilegur, ógeðslegur, lamandi og viðbjóður. Hann hefur margar birtingarmyndir og brýst oft út í fóbíum. En hann getur líka verið fyndinn og súr,“ er meðal þess sem uppistandarinn Bylgja Babýlóns skrifaði í langri Facebook-færslu um skæð ofsakvíðaköst hún glímdi lengi vel við.

Bylgja var greind með ofsakvíða þegar hún var barn en hann fór algjörlega úr böndunum fyrir fjórum árum síðan. „Mér hefur alltaf verið illa við köngulær, þær eru ekki næs. En þarna var þetta komið á stig sem var ofsafengin fóbía,“ segir Bylgja í samtali við Síðdegisútvarpið. „Þetta var farið að stjórna lífi mínu og það liðu 3-4 sólarhringar án þess að ég svæfi því ég fékk martraðir um köngulær.“ Hún ákvað að skrifa færsluna því á dögunum lenti hún í því að vera að labba heim úr vinnunni og þá datt könguló á nefið á henni. Hún hafi þá bara hrist hana af sér, tekið af sér húfuna og hrist hana smá líka. „En þá varð ég svo ánægð. Því fyrir svona fjórum árum hefði ég kveikt í mér á Skólavörðustígnum. Eða allavega hugleitt það.“

Steinunn Anna Sigurðardóttir, sálfræðingur hjá Litlu Kvíðameðferðarstöðinni, segir að það fólk sem glími við ofsakvíðaköst verði ofsalegt hrætt við kvíðaviðbragðið sitt. „Þegar það ræsist svona ofsalega og maður á ekki von á því, þá verður maður ógeðslega hræddur. Þetta er tilfinning eins og þú sért að fá hjartaáfall eða missa vitið eða kafna.“ Þrátt fyrir að ofsakvíði þurfi ekki að tengjast fóbíum þá getur þetta tvennt haft samverkandi áhrifum fyrir þann sem hrjáist af báðum kvillum.

Hjartað slær hraðar

En hvað gerist í líkamanum í ofsakvíðakasti? Anna segir að við höfum tvo mismunandi grunn-„gíra“, drifgírinn og sefgírinn. „Ég kalla það bara hlaupagír, það er kvíðaviðbragðið okkar, en hitt er rólegi gírinn,“ segir Anna. „Það sem gerist í hlaupagírnum er að skyndilega forgangsraðar líkaminn allri orku í vöðvana þína, meltingin stoppar, hjartað slær hraðar, æðarnar víkka, þú ferð að anda hraðar og grynnra til að metta súrefni hraðar í blóðið.“

„Þú ert kannski bara heima að lesa blaðið“

Á vísindavefnum segir að streita sé skilgreind sem viðbrögð líkamans við utanaðkomandi áreiti eða kröfum, jafnvel hættu. Streituviðbrögð séu talin hafa komið fram mjög snemma á þróunarbraut okkar og geri okkur kleift að berjast eða flýja af hólmi þegar hætta steðjar að. Anna segir að það sem hrjáir hins vegar fólk með ofsakvíða sé að líkaminn fari í þennan gír þó að engin ógn eða spenna steðji að. „Þú ert kannski bara heima hjá lesa blaðið. Og skyndilega stoppar meltingin, hjartað fer á fullt, þú ert farin að titra og það verða skynjunarbreytingar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Emilía Kristín - Facebook
Bylgja hefur nú náð miklum árangri í að hafa stjórn á kvíðanum.

„Ég var greind þegar ég var krakki. Svo er ég send til sálfræðings af grunnskólanum. Ég fékk alltaf þessa tilfinningu eins og ég væri að missa vitið,“ segir Bylgja. Hún var fyrst greind með netta ofvirkni/athyglisbrest. „Svo fór ég að segja honum frá þessum kvíðaköstum. Hann kláraði setningarnar mínar því hann fattaði strax hvað þetta var,“ segir Bylgja sem þá var tekin af rítalínlyfjum og sett á kvíðastillandi lyf í staðinn. Ekki nóg með það heldur hefur Bylgja einnig átt við félagskvíða að stríða. „Það er eins og þú sért alltaf „out of place“ þegar þú ert úti á meðal fólks.“

Anna segir einmitt að hægt sé að reyna að stjórna kvíðaköstunum og gera sér grein fyrir hvað valdi þeim. En það stundum hafi hræðslan við að fá kvíðakast og kvíðinn sjálfur samverkandi áhrif. Bylgja hefur ekki fengið ofsakvíðaköstin í nokkur ár, sem hún fékk áður. Hún verði stundum kvíðin en henni líði ekki eins og hún sé að deyja eða missa vitið eins og áður. „Þetta er svona til staðar – en þetta er ekki out of control.

Rætt var við Bylgju Babýlóns og Steinunni Önnu Sigurðardóttur í Síðdegisútvarpinu. Höfundur myndar efst í færslu er Emilía Kristín.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Kvíði er alveg hræðilegt fyrirbrigði“

Innlent

Eðlilegur kvíði eða óeðlilegur

Innlent

Stóraukinn kvíði meðal barna