Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fylla bakpoka af silfurbergi

09.08.2011 - 20:22
Fólk í ferðaþjónustu austanlands hefur áhyggjur af ágangi ferðamanna við silfurbergsnámuna við Helgustaði í norðanverðum Reyðarfirði. Þótt reglur segi að ekki megi fjarlægja silfurberg úr námunni eru dæmi um að ferðamenn yfirgefi námuna með fulla bakpoka.

Helgustaðanáma var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 en í henni hafa fundist einna stærstu og tærustu eintökin af silfurbergi í heiminum. Á síðustu árum og áratugum hefur hún verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna og kunnugir segja að um fimm til tíu þúsund manns heimsæki námuna á hverju ári. Upp úr miðri síðustu öld glitraði náman enn af silfurbergi en er farin að láta á sjá því ferðamenn hika ekki við að fjarlægja silfurberg úr henni þótt það sé bannað. Sævar Guðjónsson vinnur hjá ferðaþjónustunni Mjóeyri á Eskifirði og hefur fylgst með ásigkomulagi námunnar á síðustu árum. Hann segir flesta taka einn og einn stein í vasann, en sumir fylli bakpoka sína.

Umhverfisstofnun hefur sett Helgustaðanámu á svokallaðan rauðan lista sem þýðir að stofnunin telur svæðið undir miklu álagi og að bregðast þurfi strax við. Sævar óttast að ef ekkert verði að gert muni náman smám saman tæmast af silfurbergi. Hann segir eina lausn fólgna í því að ráða landvörð sem hefði gætur á Helgustaðanámu.