Fylgjast með samskiptum Íslands og Kína

05.09.2019 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarandstaðan ætlar að fara fram á að forsætisráðherra og utanríkisráðherra mæti á fund utanríkismálanefndar vegna heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Prófessor segir heimsóknina benda til að Bandaríkjamenn vilji halda þeim möguleika opnum að bandarískt herlið snúi aftur til Íslands.

 

Stjórnarandstaðan ætlar að fara fram á að forsætisráðherra og utanríkisráðherra mæti á fund utanríkismálanefndar vegna heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Prófessor segir heimsóknina benda til að Bandaríkjamenn vilji halda þeim möguleika opnum að bandarískt herlið snúi aftur til Íslands.

Mike Pence fullyrti við fjölmiðla í gær að Ísland hafi afþakkað boð Kínastjórnar um þátttöku í innviðaverkefni kínverskra stjórnvalda, Belti og braut. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sögðu hins vegar bæði að ekki hafi verið tekin afstaða til málsins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi Viðreisnar í utanríkismálanefnd Alþingis, sagði þessi ummæli, og fleiri þætti heimsóknarinnar, kalla á að forsætisráðherra og utanríkisráðherra komi fyrir fund nefndarinnar og geri grein fyrir þeim. Nefndin kemur hins vegar ekki saman fyrr en í þarnæstu viku, samkvæmt formanni nefndarinnar, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, segir að þótt viðskipta- og efnahagsmál hafi verið hinn formlegi rammi heimsóknarinnar þá blasi við að öryggis- og varnarmál hafi verið varaforsetanum ofarlega í huga. Bandaríkin hafi augljóslega áhyggjur af auknum umsvifum Rússa og Kínverja á norðurslóðum og ljóst að Bandaríkjamenn fylgjast vel með hvað Íslandi og Kína fer á milli.

„Við getum alveg örugglega sagt að þeir komi sínum skoðunum til skila og það er alveg ljóst að Ísland er í NATO og hefur unnið með Bandaríkjunum náið í gegnum tíðina í varnarmálum þannig að það er alveg ljóst að Bandaríkjamönnum finnst það að þeir hafi eitthvað um þetta að segja. Við getum líka sagt að þær ákvarðanir sem íslensk stjórnvöld gera í sambandi við Kína, það verður tekið eftir þeim í Washington.“

Ummæli varafosetans sýna einnig, að mati Guðmundar, að bandarísk stjórnvöld vilja halda þeim möguleika opnum að auka umsvif hersins hér á landi á ný. Ísland sé á hernaðarlega mikilvægu svæði og lega landsins skipti enn meira máli nú þegar kemur að málefnum norðurslóða.

„Varnarsamningurinn er í gildi ennþá þannig að ef aðstæður breytast þá reikna þeir örugglega með því að geta komið aftur. Það hefur alltaf verið ljóst. Það er ekki alveg ljóst hvort að íslensk stjórnvöld á þeim tíma komi til með að taka á móti þeim en alveg örugglega vilja Bandaríkjamenn halda þeim möguleika opnum. Sá möguleiki er opinn,“ segir Guðmundur.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi