Fylgjast með GPS-mæli, rafleiðni og vatnshæð

08.07.2019 - 12:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
GPS-mæli hefur verið komið upp við sigketil á Mýrdalsjökli og eru vonir bundnar við að hann gefi gleggri upplýsingar um það hvenær hlaup kemur í Múlakvísl. Vísindamenn gera ráð fyrir því að stærsta hlaup í átta ár verði á næstu dögum eða vikum. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands, segir að grannt sé fylgst með Múlakvísl. Engin merki um hlaup séu þó komin fram.

 

Vonast er til að GPS-mælirinn sem settur var upp á föstudag gefi víbendingu um hlaup í vændum einum til tveimur sólarhringum áður en hlaup kemur í ána við hringveginn. Salóme segir að jafnframt eigi að sjást órói á jarðskjálftamælum 4-6 klukkustundum áður. Þá ætti að mælast aukin rafleiðni í Múlakvísl. Þegar vatnsborð sé tekið að hækka við Léréftshöfuð sé svo komin staðfesting á hlaupi. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi