Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fylgja Jesú á samfélagsmiðlum

Mynd: cc / cc

Fylgja Jesú á samfélagsmiðlum

21.02.2018 - 14:47

Höfundar

Kristniboðavikan 2018 hefst sunnudaginn 25. febrúar. „Fylgdu Jesú“ er yfirskrift hennar þetta árið. „Þetta er vísun í það að vera fylgjandi einhvers á samfélagsmiðlunum,“ segir Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, tónlistarkennari og kristniboði.

Á vef Kristniboðssambandsins segir að kristniboð sé hjálparstarf og boðun kristinnar trúar meðal annarra þjóða. Þar segir að Jesús hafi lagt áherslu á það við lærisveina sína að þeir breiddu út trúna. „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum,“ á Jesús víst að hafa sagt. Á sunnudaginn hefst hin árlega kristniboðsvika Kristniboðssambandsins. Að gefnu tilefni forvitnaðist Lestin á Rás 1 um starf kristniboða: Hvernig er að vera kristniboði? Hefur starfið breyst á síðustu áratugum? Og að lokum, hvers vegna að breiða út ákveðna trú?

Jesús á samfélagsmiðlum 

Hátíðin í ár höfðar sérstaklega til yngri kynslóðarinnar, af ásýnd hennar að dæma. Herferðin skartar nefnilega höndum sem halda á snjallsímum og á skjáunum eru kennimerki helstu samfélagsmiðlanna; Facebook, Twitter, Instagram. Nema á einum síma er mynd af Jesú í líki samfélagsmiðla-kennimerkis. Lýsir vasaljós símans í átt að textanum: „Jesús sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins''.

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir er alin upp í kristilegu starfi; KFUM og K og Kristniboðssambandinu. „Það var svona pælingin að nota samfélagsmiðlana til þess að auglýsa og ná til fólks. Þess vegna fengum við þessa hugmynd að hafa grafíkina með þessum samfélagsmiðla-lógóum,“ segir Helga Vilborg um herferð kristniboðsvikunnar. 

Yfirskrift samkomuvikunnar er „Fylgdu Jesú“ og segir Helga Vilborg titilinn vísa í það að vera fylgjandi einhvers á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Twitter. „Við verðum með snöpp frá þeim sem eru á vettvangi úti alla vikuna,“ segir Helga. Til að mynda sýni kristniboðar í Japan frá daglegu lífi sínu í gegnum Snapchat og mögulega aðrir frá Eþíópíu, Grikklandi og fleiri stöðum. „Hérna áður fyrr var þetta alltaf mjög hefðbundið, búið að vera þannig áratugum saman. Það voru kannski myndasýningar, sem er alltaf fræðandi og gaman en virðist kannski ekki alltaf kveikja í þeim sem yngri eru. Þar sem allt þarf að gerast svo hratt, og þarf að vera stutt og hnitmiðað. Þannig að við ætlum allavega að prófa það núna,“ segir Helga Vilborg.

Einnig var rætt við Karl Jónas Gíslason, kristniboða sem sér um nytjamarkað Kristniboðssambandsins í Austurveri, Basarinn. Og einnig var fjallað um bókina The Fire Next Time þar sem James Baldwin segir frá eigin uppvaxtarárum innan hinnar kristnu kirkju. Hægt er að hlusta á innslagið í heild hér að ofan.