Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fylgið sveiflast í höfuðborginni

Mynd með færslu
 Mynd:
Samfylkingin bætir við sig fylgi í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð tapa fylgi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkarnir fengju fjóra borgarfulltrúa hver. Píratar fengju tvo menn og Vinstri grænir einn ef kosið væri nú.

Samkvæmt könnuninni bætir Samfylkingin við sig 6 prósentustigum frá síðustu könnun fyrir mánuði, en Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð tapa 5 prósentustigum á sama tíma. Samkvæmt Gallup mælist fylgi Bjartrar framtíðar nú 22,7%, Framsóknarflokkurinn mælist með 3,6% og Sjálfstæðisflokkurinn er með 23,5% fylgi. Píratar mælast með 13,2% fylgi, Dögun með 2,1% og Samfylkingin er með sama fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn eða 23,6%. Vinstri hreyfingin grænt

Ef litið er á hvernig sæti borgarfulltrúa myndu skiptast miðað við þetta fengi Björt framtíð fjóra borgarfulltrúa, en fékk fimm í könnuninni fyrir mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn missti líka einn mann frá síðustu og fengi einnig fjóra borgarfulltrúa. Samfylkingin myndi hins vegar bæta við sig einum borgarfulltrúa frá síðustu könnun, fengi fjóra, en fékk þrjá í könnuninni fyrir mánuði og Píratar bæta einnig við sig einum borgarfulltrúa frá því að síðast var mælt og fengi tvo. Vinstri grænir eru áfram með einn borgarfulltrúa.

Könnunin var netkönnun, gerð dagana 20. febrúar til 19. mars. Heildarúrtaksstærð var 2.738 og var svarhlutfallið tæplega 60%. Tæplega 83% nefndu flokk, liðlega 10% neituðu að svara og rúmlega 7% sögðust ætla að skila auðu.