Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fylgi Miðflokksins dalar í málþófinu

05.06.2019 - 11:19
Innlent · Alþingi · mmr · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: Miðflokkurinn
Miðflokkurinn nýtur nú 10,8 prósenta fylgis ef marka má nýja skoðanakönnun MMR. Fylgi flokksins mældist 11,8 prósent í síðustu könnun. Píratar bæta þó nokkru við sig og njóta nú stuðnings 14 prósenta kjósenda.

Miðflokkurinn hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið vegna málþófs á Alþingi í umræðum um þriðja orkupakkann svokallaða. Flokkurinn er sá eini á þingi sem tekur þátt í málþófinu. Í síðustu könnunum hefur fylgi flokksins aukist eða staðið í stað.

Í könnuninni var spurt hvaða flokk fólk myndi kjósa ef kosið yrði nú. Sjálfstæðisflokkurinn er enn vinsælasti flokkurinn í könnunum en mælist þó með nokkuð minna fylgi en hann fékk í kosningunum 2017. Í könnun MMR nýtur Sjálfstæðisflokkurinn 21,5 prósenta fylgis, en hlaut 25,2 prósenta kosningu í síðustu kosningum.

 

Vinstri græn bæta við sig tæpum tveimur prósentustigum frá síðustu könnun og njóta nú 14,1 prósents fylgis. Í kosningunum fékk flokkurinn 16,9 prósenta kosningu. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 12,5 prósent en flokkurinn mældist með 13,9 prósent í síðustu könnun MMR sem birt var í maí.

Fylgi Flokks fólksins hefur dalað nokkuð frá síðustu könnun MMR. Flokkur Ingu Sæland mælist nú með 4,2 prósenta stuðning en mældist með 6,4 prósent í síðustu könnun og 6,9 prósenta kosningu árið 2017.

Fylgi annarra framboða breytist lítið milli kannana. Stuðningur við ríkisstjórnina jókst í mánuðinum og mældist nú 45,5 prósent en 40,9 prósent í fyrri hluta maímánaðar.

Könnunin sem birt var í dag var gerð 23.- 29. maí. Svarfjöldi var 932 einstaklingar á aldrinum 18 ára og eldri af spurningavagni MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV