Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fylgi Framsóknar dalar

Mynd með færslu
 Mynd:
Fylgi Framsóknarflokks minnkar enn, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. 12,7 prósent myndu kjósa flokkinn, ef kosið yrði til Alþingis nú. Sjálfstæðisflokkur mælist stærstur með 25,3 prósenta fylgi.

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup fyrir júnímánuð minnkar fylgi Framsóknarflokks og Pírata um tæplega tvö prósentustig milli mánaða, en á sama tíma eykst fylgi Samfylkingar um tvö prósentustig.

Flestir styðja Sjálfstæðisflokk, en rétt rúmur fjórðungur segist myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ef kosið yrði til Alþingis nú, 18,2 prósent Samfylkinguna, 15,7% Bjarta framtíð. 12,8% myndu kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, sem er nær sama hlutfall og myndi kjósa Framsóknarflokk nú, 12,7%. 8,1% segjast myndu kjósa Pírata og rúmlega 7% myndu kjósa aðra flokka en eiga sæti á Alþingi.

Ríkisstjórnarflokkarnir njóta samanlagt 38 prósenta fylgis.

Sé borið saman við niðurstöður kosninganna í fyrra, fer fylgi Sjálfstæðisflokks úr 27 prósentum í 25%. Fylgi Framsóknarflokks hefur hrapað úr 24% prósentum í tæp 13%, fylgi Samfylkingar hefur aukist, var 13% en er nú 18%, VG var með 12 prósenta fylgi en 13% nú, fylgi Bjartrar framtíðar hefur nær tvöfaldast, var 8% en er tæp 16% nú, og fylgi Pírata hefur aukist töluvert, var 5% við kosningar en er 8% nú.

Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað milli mánaða, en tveir af hverjum fimm, 40,0%, sem tóku afstöðu segjast styðja hana.

Um könnunina: Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. maí til 29. júní 2014. Heildarúrtaksstærð var 6.985 og þátttökuhlutfallvar 58,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-1,5%. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.