
Fylgi Framsóknar dalar
Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup fyrir júnímánuð minnkar fylgi Framsóknarflokks og Pírata um tæplega tvö prósentustig milli mánaða, en á sama tíma eykst fylgi Samfylkingar um tvö prósentustig.
Flestir styðja Sjálfstæðisflokk, en rétt rúmur fjórðungur segist myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ef kosið yrði til Alþingis nú, 18,2 prósent Samfylkinguna, 15,7% Bjarta framtíð. 12,8% myndu kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, sem er nær sama hlutfall og myndi kjósa Framsóknarflokk nú, 12,7%. 8,1% segjast myndu kjósa Pírata og rúmlega 7% myndu kjósa aðra flokka en eiga sæti á Alþingi.
Ríkisstjórnarflokkarnir njóta samanlagt 38 prósenta fylgis.
Sé borið saman við niðurstöður kosninganna í fyrra, fer fylgi Sjálfstæðisflokks úr 27 prósentum í 25%. Fylgi Framsóknarflokks hefur hrapað úr 24% prósentum í tæp 13%, fylgi Samfylkingar hefur aukist, var 13% en er nú 18%, VG var með 12 prósenta fylgi en 13% nú, fylgi Bjartrar framtíðar hefur nær tvöfaldast, var 8% en er tæp 16% nú, og fylgi Pírata hefur aukist töluvert, var 5% við kosningar en er 8% nú.
Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað milli mánaða, en tveir af hverjum fimm, 40,0%, sem tóku afstöðu segjast styðja hana.
Um könnunina: Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. maí til 29. júní 2014. Heildarúrtaksstærð var 6.985 og þátttökuhlutfallvar 58,8%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-1,5%. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.