Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fylgi Davíðs nær út fyrir flokkslínur

08.05.2016 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að spurningin um hvort hann styðji Davíð Oddsson í embætti forseta svari sér sjálf. Hann trúir því að Davíð njóti stuðnings langt út fyrir flokkslínur.

Bjarni sagði í viðtali við Pál Magnússon í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar yrði athyglisverð.  Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson bendi á ólgutíma á meðan Guðni Th. Jóhannesson segir að ekkert sé að óttast. Bjarni var spurður hvort hann styddi sinn gamla formann, Davíð Oddsson.  

Athyglisverðar andstæður í framboðum

„Ég held að þessi spurning svari sér að nokkru leyti sjálf - og að öllu leyti sjálf skulum við bara segja. En ég trúi því að Davíð muni geta höfðað langt út fyrir flokkslínur til fólks."
Hvað finnst þér um þau rök að tími þessara manna sé liðinn, að það sé komið að öðru fólki, annarri kynslóð?
„Ég held að í dag sé alveg örugglega ekki tími til að kveða upp einhverja slíka dóma. Framundan er kosningabarátta þar sem menn munu láta fram koma hvað þeir hafa fram að færa. Hvað það er sem þeir líta á sem sitt erindi. Það verður seint í júní sem að fólk mun almennt kveða upp dóm með þetta. Hvort það vill nýja frambjóðendur, sem ekki hafa verið á sviðinu áður, eða fólk sem það þekkir með mikla reynslu. Og ég tek eftir því að Ólafur og Davíð hafa báðir með sínum hætti vísað í það hlutverk forsetans að vera til staðar, að það séu vissir ólgutímar o.sv.frv. á meðan að Guðni segir að það sé ekkert að óttast. Þetta er athyglisverður kontrastur."
 

 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV