
Furðar sig á kæru umhverfisverndarsamtaka
„Ja, mér líst ekkert sérstaklega vel á það. Svona samtök eru ekki lögaðilar sem slíkur og í sumum tilvikum eiga þau ekki að hafa beinan aðgang að svona stjórnvaldsaðgerðum,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
Hitt framkvæmdaleyfið sem sveitarstjórn Árneshrepps hefur veitt lýtur að umbótum á veginum frá Eyri norður í Ófeigsfjörð. Sá vegur er á ábyrgð Vegagerðarinnar en hún hefur samið við Vesturverk, sem áformar að reisa Hvalárvirkjun, um að fyrirtækið standi straum af kostnaði við umbætur á veginum. Samkvæmt upplýsingum Vesturverks stendur til að styrkja veginn einkum í beygjum og gera ræsi yfir tvær ár. Þetta framkvæmdaleyfi hefur meirihluti húseigenda á Eyri kært.
Framkvæmdir við vegabætur liggja niðri sem stendur vegna rannsókna á fornleifum. Minjastofnun fór um svæðið í gær og stendur til að skrá betur þær fornminjar sem kunna að raskast vegna vegabótanna. Jafnframt hafa nokkrir húseigendur í Árneshreppi kært þau landamerki sem Vesturverk styðst við en samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er stuðst við sömu landamerki og hið opinbera.