Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Furðar sig á kæru umhverfisverndarsamtaka

09.07.2019 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Oddviti Árneshrepps furðar sig á kæru fernra náttúruverndarsamtaka vegna fyrirhugaðra framkvæmda við fyrsta áfanga Hvalárvirkjunar verði stöðvaðar. Sveitarstjórn Árneshrepps veitti fyrir tæpum mánuði tvö leyfi fyrir fyrsta hluta framkvæmda við Hvalárvirkjun. Landvernd, Rjúkandi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar hafa kært leyfi sem veitt var fyrir rannsóknum, vegalagningu um fyrirhugað virkjunarsvæði, efnistöku og fleiru.

„Ja, mér líst ekkert sérstaklega vel á það. Svona samtök eru ekki lögaðilar sem slíkur og í sumum tilvikum eiga þau ekki að hafa beinan aðgang að svona stjórnvaldsaðgerðum,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.

Hitt framkvæmdaleyfið sem sveitarstjórn Árneshrepps hefur veitt lýtur að umbótum á veginum frá Eyri norður í Ófeigsfjörð. Sá vegur er á ábyrgð Vegagerðarinnar en hún hefur samið við Vesturverk, sem áformar að reisa Hvalárvirkjun, um að fyrirtækið standi straum af kostnaði við umbætur á veginum. Samkvæmt upplýsingum Vesturverks stendur til að styrkja veginn einkum í beygjum og gera ræsi yfir tvær ár. Þetta framkvæmdaleyfi hefur meirihluti húseigenda á Eyri kært.

Framkvæmdir við vegabætur liggja niðri sem stendur vegna rannsókna á fornleifum. Minjastofnun fór um svæðið í gær og stendur til að skrá betur þær fornminjar sem kunna að raskast vegna vegabótanna. Jafnframt hafa nokkrir húseigendur í Árneshreppi kært þau landamerki sem Vesturverk styðst við en samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er stuðst við sömu landamerki og hið opinbera.