Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Furðar sig á aðgerðum lögreglu á Austurvelli

12.03.2019 - 00:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Logi Már Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, furðar sig á aðgerðum lögreglu á mótmælum hælisleitenda á Austurvelli í dag. Ekkert tilefni hafi verið til harkalegra viðbragða.

Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda á Austurvelli í dag þar sem lögregla beitti m.a. piparúða. Hælisleitendur og flóttamenn voru þar samankomnir til að krefjast úrbóta á aðbúnaði sínum og málsmeðferð sinni. Tveir voru handteknir en mótmælendur hafa krafist þess að lögregla leysi þá úr haldi.

Logi vekur athygli á mótmælunum á facebook. Þar segir að hann hafi í dag orðið vitni af „óvenjulega harkalegum“ viðbrögðum lögreglu sem hann segir beint að hópi í afar veikri stöðu. Hann minnist þess ekki að tiltölulega fámennum mótmælum hafi áður verið mætt með slíkum aðgerðum og segist ekkert hafa séð sem hafi gefið tilefni til slíkra aðgerða.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hefur kynnt drög að frumvarpi til breytinga á útlendingalögum sem fela í sér að þrengt er að réttindum hælisleitanda. Logi segir þrengingar reglugerða og frumvarp dómsmálaráðherra mikla afturför. 

„Þetta bætist við sífelldar þrengingar reglugerða dómsmálaráðherra í málefnum hælisleitenda og flóttamanna og boðað frumvarps hennar um sömu hópa, sem eru mikil afturför. Er nema von að maður spyrji á hvað leið stjórnvöld eru og hvort hún sé farin með samþykki VG?“