Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Furðar sig á að önnur fyrirtæki hækki verð

20.08.2015 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Neytendasamtakanna segist ekki skilja hvers vegna mörg fyrirtæki telji sig þurfa að hækka verð vegna kjarasamninga á sama tíma og IKEA telji samningana veita svigrúm til verðlækkunar.

Eftir að kjarasamningar tóku gildi í vor hafa fjölmörg stór fyrirtæki hækkað verð. Þetta má sjá á vef Neytendasamtakanna. IKEA á Íslandi ákvað hins vegar í gær að lækka hjá sér vöruverð um 2,8 prósent, vegna þess að aðstæður í þjóðfélaginu leyfi það. Styrking krónunnar, kjarasamningar og stóraukin umsvif vegna ferðamanna geri fyrirtækinu þetta kleift.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, fagnar þessu útspili en segir að það ætti í raun ekki að koma á óvart.  Þær forsendur sem kynntar eru með þessari ákvörðun IKEA, þær sýna okkur fram á að það þarf ekki að bregðast við launahækkunum sem hafa verið að koma fram núna eftir kjarasamninga. IKEA þarf ekki að hækka verð, út af hverju í ósköpunum er hækkunarþörfin svona mikil hjá öðrum fyrirtækjum,“ segir Jóhannes.

Hann hvetur önnur fyrirtæki til að fylgja þessu fordæmi og að minnsta kosti draga hækkanir til baka, enda sé mikið í húfii.  „Ef allt verðlag fer meira og minna á flot, þá fer verðbólgan af stað, þá munu verðtryggðar skuldir heimilanna að hækka, þá eru kjarasamnignar í uppnámi 1. febrúar næstkomandi, allavega sumir þeirra. Þannig að það skiptir verulega miklu máli fyrir okkur að verðlag hækki sem allra minnst, helst ekki neitt.“

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV