Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fundur BÍ og SA stendur enn – Félagsdómur starfar

14.11.2019 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Samningafundur í deilu Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins stendur enn hjá ríkissáttasemjara, en fundurinn hófst klukkan hálf tvö. Takist ekki samningar fara félagsmenn Blaðamannafélagsins á vefmiðlunum Mbl.is, Fréttablaðið, Vísir og RÚV í verkfall, sem og ljósmyndarar og myndatökumenn þessara miðla sem eru í félaginu.

Verkfall er boðað frá klukkan tíu í fyrramálið til klukkan átján. Félagsmenn í Blaðamannafélaginu fóru í fjögurra tíma verkfall síðasta föstudag. Meint verkfallsbrot, einkum á Mbl, en einnig á RÚV hafa verið kærð til Félagsdóms.

Fram kom í hádegisfréttum að skipunartími dómara við Félagsdóm hafi runnið út síðustu mánaðamót og dómurinn yrði ekki fullskipaður fyrr en í næstu viku. Arnfríður Einarsdóttir formaður dómsins sagði í samtali við fréttastofuna það ekki hafa áhrif á kæru Blaðamannafélagsins. Búið sé að ganga frá skipun hennar í dóminn og hún hafi gefið út stefnu í málinu í dag og það verði þingfest á þriðjudag.