
Fundu ný mannvirki á Hofstöðum
Orri segir að nú sé í fyrsta sinn unnið að nákvæmri kortlagningu á öllu svæðinu. „Myndin sem við höfum af þessum stað er enn ansi ófullkomin og það á eftir að koma betur í ljós hvað leynist þarna með frekari rannsóknum,“ segir hann.
Veisluskáli og kirkjugarður höfðu áður fundist. Nýtt bæjarstæði með allstórum skála uppgvötvaðist svo árið 2016. Í kjölfar þess var ákveðið að reyna að kortleggja og kanna svæðið betur. Það hafi gengið vonum framar og þrjú áður óþekkt mannvirki hafa nú komið í ljós.
Orri segir að frekari rannsóknir þurfi að fara fram á staðnum til þess að hægt sé að segja til um hvaða hlutverki þessar nýfundnu byggingar hafi gegnt. Næstu skref séu að afla fjár og gera áætlanir svo hægt sé að gera almennilega rannsókn á þessum minjum.
Ýmsar tilgátur eru um hvernig lífi og starfi hafi verið háttað á þessum slóðum. Með uppgreftrinum sé verið að reyna að skilja betur sögu staðarins.
Til dæmis hafi þar verið pólitísk starfsemi og einhvers konar félagslíf. Þá hafi skáli, þar sem heiðnar athafnir hafi farið fram, staðið við hlið kristinnar kirkju í einhverja áratugi. Þessi trúarbrögð hafi því gengið saman um skeið. „Þetta gefur vísbendingu um að trúskiptin hafi mögulega tekið lengri tíma og verið flóknari en við höfðum ímyndað okkur,“ segir Orri.
Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands og Fornleifastofnunar.
Nýtt mannvirki fannst í dag á Hofstöðum í Mývatnssveit. Ég grét næstum af gleði. Það er svo geggjað gaman að vera fornleifafræðingur. @beinakerling ásamt Magneu og Orra pic.twitter.com/iT1uQOAUGM
— Lísabet Guðmundsdótt (@LisabetGud) August 9, 2019