Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fundu hakakrosstöflur á Suðurnesjum

Merki lögreglunnar á Íslandi.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglan á Suðurnesjum lagði hald á töluvert af fíkniefnum í vikunni eftir að hún stöðvaði mann sem grunaðar var um akstur undir áhrifum fíknefna. Sýnatökur staðfestu að maðurinn hafði neytt metamfetamíns og kannabisefna.

Mikið af kannabisefnum fannst í buxum farþega í bílnum og var hann handtekinn líkt og ökumaðurinn.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að númeraplöturnar á bílnum reyndust stolnar. Húsleit var gerð á dvalarstað ökumannsins og fundust þar hakakrosstöflur, hvítt efni í krukku og plastpoka og meintir sterar. Líka voru þar tól og tæki sem benda til þess að þar hafi fíkniefnum verið pakkað og þau seld.

Ökumaðurinn gekkst við því að eiga efnin og hafa stolið númeraplötunum.
Í haust varaði lögreglan við fíkniefnum í töflum með hakakrossi. Mörg mál hefðu komið upp þar sem þeir sem neyttu slíkra taflna voru gersamlega út úr heiminum og stórhættulegir sjálfum sér og öðrum.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV