Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fundu ekki féð í myrkrinu

22.05.2011 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Í Ásgarði í landbroti var kolniðamyrkur fram yfir hádegi og bændur þar, þau Eyþór Valdimarsson og Þóranna Harðardóttir, orðin uggandi um fé sitt í dag.

„Það var eiginlega ekkert hægt að gera. Ég fór á hjólinu um túnið þar sem ég vissi að féð var og ætlaði að koma því í skjól en varð frá að hverfa því ég sá ekki neitt og fann ekki einu sinni féð þó ég ætti að vita hvar það var,“ segir Eyþór.

Þóranna segir að þau hafi heyrt lömbin jarma úti en ekkert getað gert. Það hafi ekki verið skemmtilegt.

Síðdegis tókst að smala fénu saman og nú vonast bændurnir til að það fari að rigna svo öskunni skoli burt. Kindunum hefur ekki orðið meint af öskufallinu en mestu skiptir að lömbin flæmist ekki undan ánum.

Sjá viðtal Gísla Einarssonar við Eyþór og Þórönnu hér fyrir neðan.