Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Funda með vegamálastjóra vegna Hellisheiðar

12.02.2018 - 20:07
Mynd með færslu
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði. Mynd: RÚV
Hellisheiðinni var lokað í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og var ekki opnuð aftur fyrr en í morgun, nítján klukkustundum síðar. Þessi langa lokun hefur víða sætt gagnrýni. Hellisheiði hefur verið lokað 12 sinnum frá áramótum. Veginum var lokað fjórum sinnum á síðasta ári.

Bæjaryfirvöld í Hveragerði ætla að funda með vegamálastjóra um málið á morgun, ef veður leyfir. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir ljóst að veðrið núna sé verra en undanfarin ár. „En við hljótum að spyrja okkur hvað gerist ef það gerir raunverulegan vondan vetur eins og við höfum oft séð áður,“ sagði Aldís í viðtali við Þórhildi Þorkelsdóttur, fréttamann í sjónvarpsfréttum. 

Það er talað um það að Hvergerðingar hafi verið að velta því fyrir sér hvort mögulega sé verið að loka of oft. Er það raunin? „Sú tilfinning hefur örlítið skapast og sú umræða myndast í sveitarfélaginu að það sé verið að loka þrátt fyrir að það sé bara ágætis veður. Auðvitað verðum við að trúa því að Vegagerðin sé ekki að loka bara til að kvelja okkur fyrir hér austan fjall heldur að það séu raunverulegar ástæður fyrir því. Þá þarf að komast að því hvers vegna. Hvers vegna er verið að loka svona oft og oftar en við höfum áður séð og hvers vegna erum við að fá þessa tilfinningu að það sé ekki alveg ástæða til?“ spyr Aldís.  

Aðspurð að því hvort lokanirnar tengist gatnakerfinu, að það sé ekki í stakk búið að taka við allri umferðinni, segir Aldís að vissulega hafi umferðin aukist mikið. „Og við erum að sjá mikla fjölgun ökumanna sem eru ekki vanir þeim aðstæðum sem við þekkjum hér. Bílarnir eru kannski ekki jafn góðir en við erum líka að sjá að þar sem víravegrið hefur verið sett á einbreiðan veginn þá teppist umferð þar. Sú umræða hefur verið að það ætti að setja víravegriðið, eins gott og það er, á tvöfaldar akreinar, ekki á einbreiða vegi.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir