Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra vonast til að eiga fund með fulltrúum Akranesskaupstaðar og þjóðminjaverði á næstunni. Þar yrði rætt um framtíð Kútters Sigurfara.
Akurnesingar hafa óskað eftir aðkomu ríkisins að því að bjarga skútunni frá glötun en hún grotnar nú niður á safnasvæðinu á Akranesi. Akurnesingar telja að innan skamms þurfi að taka ákvörðun um að bjarga skútunni eða farga henni. Fulltrúar Akranesbæjar áttu fund með menntamálaráðherra í vor þar sem málið var rætt. Þá var ákveðið að halda annan fund og þá með aðkomu þjóðminjavarðar eða fólks á hans vegum. Ekkert varð af þeim fundahöldum í vor en nú stendur til að boða til þess fundar á næstu dögum.