Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fullyrðir að félagið verði áfram íslenskt

01.12.2018 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Tómasson - RÚV
Líklegt er að breytingar verði á rekstri WOW Air, fjárfesti Indigo Partners í félaginu. Þetta er mat Kristjáns Sigurjónssonar greinanda í ferðaiðnaðinum. Skúli Mogensen, forstjóri Wow fullyrðir að félagið verði áfram íslenskt. 

 

Wow Air tapaði rúmum fjórum milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Þetta kom fram í árshlutauppgjöri sem birt var seint í gær. „Þetta er verra en ég hélt sérstaklega af því að þegar skuldabréfaútboð var kynnt í júlí var talað um að afkoma á seinni hluta þessa árs ætti að batna töluvert. Þeir sem ætla að leggja félaginu fé verða að koma inn með marga milljarða, jafnvel yfir tíu til þess líka að koma félaginu í gegnum þennan öldusjó sem er fyrirsjáanlegur á næsta ári með háu olíuverði og uppstokkun í rekstri félagsins,“ Segir Kristján SIgurjónsson, ritstjóri vefjarins túristi.is

Meirihluti líklegri en minnihluti

Wow á í viðræðum við fjárfestingasjóðinn Indigo Partners. Skúli sagði í fréttum í gær að fjárfesting Indigo yrði umtalsverð, en vildi ekki segja til um hvort sjóðurinn hygðist kaupa meirihluta í fyrirtækinu.

„Í byrjun vikunnar lá á borðinu að ef Wow myndi renna inn í Icelandair fengi Skúli um 2% hlut í Icelandair í því samhengi finnst manni ólíklegt að nýr aðili komi inn í félagið, setji svona mikið inn í það og verði svo í minnihluta.“

Óljóst hvort og hvernig félagið breytist

En krefst Indigo breytinga á rekstrinum?

„Það mun koma í ljós,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air. 

 Munið þið sameinast öðru lággjaldaflugfélagi, kemur það til greina?

„Ég get ekki tjáð mig efnislega um samninginn að svo stöddu,“ segir Skúli. Hann gat heldur ekki tjáð sig um hvort leiðakerfið kæmi til með að breytast.

Telur að breiðþoturnar fari 

Kristján á von á að félagið skili öllum breiðþotum og einbeiti sér að styttri leiðum, verði af samningnum. Þannig verði flugi til Indlands og Kaliforníu líklega hætt eða dregið úr því. 

Því hefur verið velt upp hvort félagið verði áfram með íslenskar áhafnir og höfuðstöðvar hér. Skúli segir að svo verði. „Við verðum svo sannarlega íslenskt fyrirtæki áfram.“