Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fullt tilefni til að halda sig heima í óveðrinu

13.02.2020 - 15:55
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
„Ég held að það sé alveg fullt tilefni til þess að menn haldi sig bara heima á meðan það versta gengur yfir, nema þeir hafi brýnt erindi út. Auðvitað verða menn að fylgjast með stöðunni hverju sinni á hverjum stað,“ segir Oddur Árnason, lögreglustjóri á Suðurlandi. Þar er verið að undirbúa viðbrögð við óveðrinu á morgun.

Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir allt landið á morgun og vindur verður hvað mestur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Þar er í gildi rauð veðurviðvörun fyrir hádegi á morgun. „Við erum í sambandi við svæðisstjórnir björgunarsveita á Suðurlandinu öllu.

Aðgerðastjórn verður opnuð á Selfossi og vettvangsstjórnir virkjaðar fyrir svæðin austan við Selfoss. „Allir aðrir viðbragðsaðilar, björgunarsveitir eru þarna fyrstar, síðan eru sjúkaflutningar og slökkvilið, og nefndu það tilbúin í að bregðast við,“ segir Oddur.

„Það er útlit fyrir að vesturhluti umdæmisins fái mestan vindinn í fyrramálið. Það eiga allir að vera tilbúnir til að takast á við þetta,“ segir Oddur. Spurður hvort þeim tilmælum hafi verið komið til fólks að halda sig heima segir hann: „Ég held að miðað við 32 m/s meðalvind þá eigi fólk ekki að vera á ferðinni.“

Ferðamenn sem eiga leið um Suðurland í nótt og á morgun verða upplýstir eftir hefðbundnum leiðum. Oddur segir starfsfólk hótela og gistiheimila einnig duglegt við að upplýsa ferðamenn um stöðuna eins og hún er hverju sinni.