Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fullelduðum kræklingum skolaði á land

19.02.2020 - 14:09
Kræklingur í skel.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Um hálf milljón kræklinga fannst nánast fullelduð við Maunganui Bluff ströndina nyrst á Norðureyju Nýja-Sjálands. Sjávarlíffræðingar tengja dauða þeirra við loftslagsbreytingar. Sjórinn við norðurströnd Nýja Sjálands hefur verið óvenju heitur og stilltur. Sérfræðingar telja að þær aðstæður ásamt sólarljósinu hafi hitað kræklinginn verulega upp.

Brandon Ferguson frá Auckland fann kræklinginn. Hann birti myndband á Facebook þar sem hann gengur um ströndina, sem er nánast þakin kræklingi. 
Chris Battershill, sjávarlíffræðingur við Waikato háskólann, segir svipaðar aðstæður hafi valdið dauða annarra skelfiska í gegnum tíðina. Hitinn og stillti sjórinn leiðir bæði til þess að dýrin verða fyrir hitaþrýstingi og þau fá ekki nægt súrefni því sjórinn er svo stilltur, hefur AFP fréttastofan eftir honum. Þannig eru þau nánast elduð lifandi.

Battershill segir öfgakennt veðurfar drepa þær og telur dauða þeirra tengdan loftslagsbreytingum. „Þegar við sjáum svona marga fjöldadauða síðustu ár þar sem margar dýrategundir eiga í hlut verðum við að setjast upp og fylgjast með því,“ segir Battershill. 

Sjávarvísindamaðurinn Andrew Jeffs við háskólann í Auckland segir líkur á því að fleiri fjöldadauðar eigi eftir að verða vegna loftslagsbreytinga. Hann segir kræklinga þó eiga eftir að flytja sig á kaldara hafsvæði á endanum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV