Fuglveldi

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Fuglveldi

29.04.2018 - 08:00

Höfundar

Hvað er það sem við tölum um þegar við tölum um íslenska myndlist? Starkaður Sigurðarson fjallar um mörkin milli íslenskrar myndlistar og erlendar.

Starkaður Sigurðarson skrifar:

Í listhúsum Reykjavíkurborgar hafa undanfarið verið margar listasýningar af erlendum listamönnum. Í Listasafni Reykjavíkur er samsýning fjögurra danskra Listamanna. Í sýningarrýminu Open við Grandagarð er sýning norska listamannatvíeykisins Aurora Sander. Í Kling og Bang galleríinu er sýning á verkum bandaríska málarans Elizabeth Peyton. Á Listasafni Íslands er áhugaverð sýning ljósmyndarans Elinu Brotherus, frá Finnlandi. Þá má nefna ljósmyndagalleríið Ramskram sem sýnir ljósmyndir eftir Mexikóska listamanninn Alfredo Esparza. Og fyrir stuttu sýndi i8 galleríið ljósverk eftir hinn heimsfræga Robert Irwin, þekktur úr hverri skólabók í listasögu. List á íslandi er ekki bara íslensk.

Og það má fara lengra. Af þeim þrem listamönnum sem valdir hafa verið til að þróa áfram sínar tillögur að verki fyrir Feneyjatvíæringin þá lærði Elín Hansdóttir til meistaranáms í Þýskalandi og hefur annan fótinn þar. Hekla Dögg Jónsdóttir lærði í Kaliforníu en líka aðeins í Þýskalandi. Hrafnhildur Arnardóttir, þekkt líka sem Shoplifter, bæði lærði í New York og býr þar að mestu leyti. Hvað er það sem við tölum um þegar við tölum um íslenska myndlist?

Það er kannski ekki einkennilegt fyrir lítið land með stutta listasögu, land háð stærri afla, land þar sem lengst af okkar sögu höfum við öll litið eins út, að margt sé tekið annarsstaðan frá. Hér var ekki Listaháskóli fyrr en 1998. Þær listastefnur sem einkenndu stærri heiminn þarna úti voru alltaf seinna á ferðinni hér, ef þær komu yfir höfuð. Og erfitt var að nota sömu orðin til að skilgreina list hér á landi og í útlandinu. Fríða Björk Ingvarsdóttir, bókmenntafræðingur og rektor Listaháskólans, talaði um í útvarpsþáttaröðinni Ágætis Byrjun að stefna eins og póstmódernismi hafði aldrei sama vægi, ekki sömu merkingu eða virkni, hér á Íslandi. Það er erfitt að móta listastefnu út úr andstöðu við stofnanir og valdamisbeitingu ef það eru fáar stofnanir í kringum þig og allir virðast telja sig í sömu stétt.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Reykjavíkur
Með pistlinum birtast myndir Starkaðar af verkum dönskum listamannanna Jeannette Ehlers og John Kørner. Þau eiga verk á sýningu í Hafnarhúsinu.

Hið íslenska 

Hvað er íslensk list nú á aldarafmæli fullveldisins? Hvaða áherslur þurfum við að tileinka okkur í þessari siglingu þar sem hafið bæði breikkar og dýpkar allt í kringum einstaklinginn, en á sama tíma er Ísland orðið í alfaraleið? Og þá er spurningin líka hvers virði er það að skilgreina íslenska myndlist frá annarri myndlist? Í dag er hægt að stunda grunnám í listum á Íslandi, og svo framhaldsnám, og svo er hægt að fara þaðan jafnvel í að kenna í Listaháskólanum, ásamt því að sýna vítt og breitt í þeim nýju sýningarrýmum sem nú finnast hér. Það er hægt að vera listamaður á Íslandi, þó það sé erfitt, borgi mjög illa, og fæstir lifa af því einu. En list á Íslandi dafnar ekki í lokuðu rými, hún sprettur upp hér með fræjum að utan. Kjarval var í Danmörku, Frakklandi, Ítalíu. Jón Stefánsson sömuleiðis. Louisa Matthíasdóttir, Nína Tryggvadóttir, Nína Sæmundsson, Ásmundur Sveinsson. Er starf listamannsins að koma með menningu til Íslands? Eða eru erlendir listamenn að koma hingað til að kynnast okkur? En listin er ekki skuldbundin landinu. Áhugaverð list talar á sínum eigin forsendum; hennar virkni er ekki bundin við náttúruna, lundahatta, gengi, eða veðurfar.

Listamenn þurfa að fara erlendis til að sjá þá tvíræðni sem sést ekki alltaf auðveldlega í heimalandinu. Og þegar aftur heim er haldið þá koma með þeim orð eins og „postcolonialism“, eða eftirlendufræði, „cultural appropriation“, eða menningarnám, „globalization“, eða alþjóðavæðing, póstmódernismi, það að miðausturlönd eru bara miðaustur frá okkur séð. Það stækkar samhengið. En þá er hlutverk listamannsins orðið afar siðferðislega hlaðið. Hefur listamaður þetta hlutverk? Hvað hugsar Íslendingur um alþjóðavæðingu eða menningarnám? Hvað er Ísland í samhengi þrælahalds, nýlendustefnu Danmerkur, hvað þýðir það að selja fisk til Rússlands eða Bandaríkjanna?

Sýningin Tak i líjge múðe, eða Takk sömuleiðis, í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur, sem skipulögð er í sambandi við aldarafmæli fullveldisins opnar á þessar spurningar. Þar koma danskir listamenn með hápólitíska list inn í safn á fyrrverandi nýlendu og tala um valdbeitingu Dana og þeirra blóðugu sögu. Titillinn á sýningunni virðist vera háíronsíkur. Í þessum verkum er skuldin sem talað er um ekki þakkarskuld. Jeannette Ehlers, listamaður sem getur rakið rætur sínar til Trinidad, málar málverk með svipu og kolum á hvítan striga. Áhugavert er að Ehler nam nám sitt í Kaupmannahöfn, og talar list hennar mikið um það hvað Danmörk þýðir, og hvað það þýðir fyrir hana að vera dönsk. En hvað gerist þegar þessi list er sett inn á íslenskt safn? Það er öðruvísi að takast á við söguna þegar ofbeldi nýlenduherranna sést utan á þér, á því hvernig þú ert á litinn. Arfleið Dana á Íslandi er af öðrum toga. Eða hvað? Erum við heppin eða óheppin? Hverskonar samtal viljum við hafa um hvað er íslenskt? Sérstaklega þegar um síðastliðin fimmtán ár hefur sú ímynd af Íslandi verið markaðssett og peningavædd af ákefð, útávið sem og innávið, ímynd sem aldrei var til nema í auglýsingu. Einkennilegt orð þá fullveldi. Fullt vald yfir hverju? Eða er það fullkomið vald? Alveg allt valdið?

Ekkert nýtt – ekkert íslenskt

En ef það er ekkert til sem heitir íslenskt þá er það ekkert nýtt heldur. Libia Castro og Ólafur Ólafsson, tvíeykið sem fór fyrir íslands hönd á Feneyjatvíæringin árið 2011, sögðu, og segja enn: Landið þitt er ekki til. Og listin þá ekki heldur. Hún er búin til, samsteypa, úr öllum áttum. Er hægt að hugsa um Robert Irwin sem hluti af íslenskri list? Eða Elinu Brotherus? Eða Shoplifter? Það er kannski við hæfi að hugsanlega víðamesta sýning á íslenskum listamanni fer fram á Ítalíu.

Hverju erum við að fagna þá, hundrað árum frá fullveldi þessara lands? Hvað finnst okkur um Danina? Hvað þýðir það að fara til Danmerkur að læra list og koma með hana til Íslands? Og hvað með Kanann? Hvaðan fengum við þetta fullveldi? Á tímum þegar kallað er eftir gagnsæi og jafnrétti þá þurfum við að skoða betur hvað er í okkar valdi. Hvort með þessu valdi komi ekki líka ábyrgð? En þá abyrgð á hverju? Oftast hallar vald aðeins í eina átt. Hvernig tekst maður á við fyrirbæri sem, á einn hátt er ekki til, en á sama tíma hafa ódæðisverk og ofbeldi verið framin sérstaklega í nafni þessa fyrirbæris?

Þá ættum við kannski að huga að mun mikilvægara aldarafmæli. Þegar á næsta ári, 2019, eru hundrað ár frá fyrstu almennu listasýningu á Íslandi.

Pistil Starkaðar má heyra hér að ofan en með honum birtast tvær myndir sem hann tók, á póstmódernískan máta, af tveimur verkum á sýningunni Tak i lige måde - samtímalist frá Danmörku sem nú stendur yfir í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Efri myndin er brot af verki Jeannette Ehlers en sú neðri brot úr verki John Kørner