Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Frystihúsið á Þórshöfn stækkað

15.03.2012 - 20:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Miklar framkvæmdir standa nú yfir hjá Ísfélaginu á Þórshöfn. Frystigeta fyrirtækisins verður aukin og með nýjum búnaði eykst aflaverðmæti í vinnslu uppsjávarfiska.

Framkvæmdir eru nú í fullum gangi við frystihúsið á Þórshöfn. 900 fermetra bygging sem verið er að reisa þarf að vera tilbúin fyrir næstu makrílvertíð. 

Nýja viðbyggingin eykur frystigetu frystihússins, auk þess sem hún gefur möguleika á meiri gæðum á frystingu á makríl og síld. Rafn Jónsson, verksmiðjustjóri Ísfélagsins á Þórshöfn, býst við að áhrifin verði töluverð. „Við höfum verið með svona eldri gerð af plötufrystum og núna ætlum við í þessa blástursftrystingu til að auka verðmæti á þeim fiski sem við drögum úr sjónum.“

Stækkun frystihússins er ekki eina framkvæmdin sem er í gangi hjá Ísfélaginu á Þórshöfn því þessa dagana er verið að leggja lokahönd á byggingu nýs ketilhúss við loðnubræðsluna. Þetta eru þó síður en svo einu framkvæmdirnar sem Ísfélagið hefur lagt í síðan það keypti starfssemi Hraðfrystistöðvar Þórshafnar árið 2007. Rafn áætlar að samanlagt verðmæti þeirra framkvæmda sem ráðist hefur verið í undanfarin fimm ár nemi 1,5 milljörðum króna.

Og þótt menn séu farnir að huga að móttöku á síld og makríl á Þórshöfn er enn verið að landa loðnu hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. „Ég held við séum búin að landa eitthvað um 55-60 þúsund tonnum á þessari vertíð sem er skínandi gott í okkar hlut og Ísfélagið landar á þessari vertíð eitthvað um 220 þúsund tonnum af loðnu,“ segir Rafn.