Frumvarpið á að breyta nálgun ríkislögmanns

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Nálgun ríkislögmanns í dómsmálum vegna bóta í Guðmundar- og Geirfinnsmálum breytist ef frumvarp forsætisráðherra um bætur til eftirlifandi sakborninga og afkomenda hinna látnu nær fram að ganga. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi í kvöld. Brynjar Níelsson gagnrýndi frumvarpið og sagði ýmsa nálgun þingsins í Guðmundar- og Geirfinnsmálum vera aðför að dómsvaldinu í landinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um bætur til handa þeim sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem voru sakfelldir 1980 en síðar sýknaðir við endurupptöku málsins. Hún sagði frumvarpið fyrst og fremst snúast um að tryggja sakborningum bætur.

Katrín fór yfir feril málsins síðustu ár, endurupptöku málsins, sýknudóm og viðræður um bætur til handa sakfelldu. Katrín vísaði til málaferla og fyrirhugaðra málaferla sakborninga vegna bótakröfu. Hún sagði að verði frumvarpið samþykkt fái sakborningarnir sem síðar voru sýknaðir bætur fyrir rangláta meðferð opinbers máls. Þessar bætur yrðu greiddar án þess að til dómsmáls þurfi að koma og án kröfu um að fallið verði frá dómsmáli. Hins vegar geta bótagreiðslur samkvæmt frumvarpinu dregist frá bótum sem dæmdar verða í dómsmálum. Niðurstaða dómsmála liggur ekki fyrir fyrr en á næsta ári, sagði Katrín. Hún sagði miður að málið hefði farið í þennan farveg.

Katrín fór yfir efni frumvarpsins með settum ríkislögmanni í síðustu viku. „Verði þetta frumvarp mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á málatilbúnað ríkislögmanns en ég fór yfir efni þess á fundi með honum í síðustu viku. Þar kom fram að hann myndi breyta nálgun sinni í málflutningi í ljósi þessa frumvarps sem við ræðum hér í dag verði það að lögum.“

Stjórnmálin og samfélagið verða að líta inn á við, skoða hvernig Guðmundar- og Geirfinnsmál þróuðust „og hvernig við búum svo um hlutina að það gerist aldrei aftur,“ sagði Katrín. Hún sagði að það sem henti sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hefði getað hent hvern sem er.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formaður Miðflokksins sagði ótækt að Alþingi tæki frumvarpið til umræðu.

Með öllu ótækt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kvað sér máls áður en frumvarpið var tekið á dagskrá. Hann sagði að málið væri með öllu ótækt. Hann sagði að með þessu færi löggjafarvaldið inn á svið dómsvaldsins. „Miðað við hvernig þessu er stillt upp fylgir væntanlega krafa um það að Alþingi fari að rannsaka málið og hvað lá til grundvallar við ákvörðun refsingar.“

„Það er hreint ekki óeðlilegt að Alþingi komi að þessu máli í ljósi aðkomu Alþingis á fyrri stigum þess,“ sagði Katrín og vísaði til aðkomu Alþingis að endurupptöku málsins. „Ég get ekki fallist á þann málflutning sem háttvirtur þingmaður fór með undir liðnum fundarstjórn forseta.“

Vantraust á ríkislögmann?

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist ekkert botna í frumvarpinu. Hún sagði að með sýknudómi Hæstaréttar í fyrra velti fyrir sér hvort ekki dygði að líta til laga um meðferð sakamála sem kveða á um bótarétt þeirra sem hafa að ósekju afplánað dóm. „Af hverju að leggja þetta fram? Af hverju er látið eins og þetta sé nauðsynleg lagasetning?“

„Fyrir því er fyrst og fremst sú ástæða að lögfræðilegir ráðgjafar mínir telja rétt að réttarstaða allra sé jafn tryggð bæði þeirra sem enn eru á lífi og aðstandenda þeirra sem eru látnir,“ sagði Katrín. Hún sagði að megintilgangurinn væri að aðstandendur þeirra sem eru látnir væru jafnsettir þeim sem enn eru á lífi.

Helga Vala spurði hvort aldrei hefði komið til álita að láta lögin líka gilda um Erlu Bolladóttur, sem hefði verið undir miklum þrýstingi. Katrín sagði þessar bótakröfur taka til þeirra sem voru sýknaðir í fyrra. Erla Bolladóttir var ekki þar á meðal. Helga Vala sagði síðar í umræðunni að Erla hefði vissulega ekki lengur setið í gæsluvarðhaldi þegar lögreglumenn yfirheyrðu hana þegar á leið en í hvert skipti sem lögregla mætti heim til hennar hefði hún verið með nýfætt barn sitt. Því hafi sú ógn vofað yfir henni að vera aðskilin frá hvítvoðungnum.

Helga Vala sagðist ekki átta sig á því hvers vegna fela ætti forsætisráðherra að taka á bótagreiðslum nema frumvarpið fæli í sér algjört vantraust á ríkislögmann. Hún sagðist ætla að sitja hjá ef þingmenn ættu að fara að metast um hvernig bætur ætti að greiða. „Þetta mál á ekki að vera bundið einhverri flokkspólitík. Það er miklu stærra en það.“

Mynd með færslu
Frá sýknudómi Hæstaréttar 2018. Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Dómi fagnað í endurupptöku málsins fyrir ári síðan.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði hvers vegna ekki væri tiltekin ákveðin upphæð í frumvarpinu og sagðist efast um að þingið væri að fara að skrifa upp á auðan tékka. Katrín sagði að æskilegast hefði verið að fastsetja upphæðina í 725 milljónum króna, þeirri stöðu sem var uppi í vor, en það hefði ekki gengið eftir.  

Aðför að dómsvaldinu

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist líkt og Helga Vala velta fyrir sér tilgangi frumvarpsins. Hann velti líka fyrir sér fordæminu í því að Alþingi samþykkti frumvarp um að tryggja réttarstöðu aðstandenda þeirra sem brotið hefði verið á. „Er ekki lang eðlilegast að treysta dómstólum fyrir að ljúka þessu máli?“

Katrín sagði að það hefði vissulega verið ein leið við dóm Hæstaréttar að segja hinum sýknuðu að sækja bætur fyrir dómstólum. Það hefði ekki verið sú leið sem var farin. Reynt væri að tryggja stöðu aðstandenda. „Eru fordæmi? Ég vona að þetta mál endurtaki sig aldrei,“ sagði Katrín. „Ég ætla að treysta því að réttarríkið á Íslandi standi styrkari fótum en þegar þetta mál kom upp.“

Síðar í umræðunni sagðist Brynjar muna þá tíð að þegar þremenningar sem voru ranglega sakaðir í málinu sóttu um bætur. Þá hefðu stjórnmál sagt málið algjörlega einstakt og ekki rétt að stjórnvöld tækju afstöðu til þess. Því hefðu málin öll endað fyrir dómi. Þarna vísaði hann til máls Magnúsar Leopoldssonar, Einars Bollasonar og Valdimars Olsen. Hann sagði að nú væri bótakrafan miklu hærri en þá. „Þetta mál hefur í raun og veru allt verið tekið frá dómstólum,“ sagði Brynjar og ítrekaði að málið ætti að vera hjá dómstólum. „Ég lít á alla þessa málsmeðferð sem aðför að dómsvaldinu í landinu, hvað sem okkur kann að finnast um það.“ Hann sagði að menn væru ekki alltaf sammála niðurstöðu dómsmála en sagði fullkomið hneyksli ef stjórnmálamenn ætluðu að taka fram fyrir hendurnar á dómstólum.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚv
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði hvað hefði orðið um gerandann í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Hvað varð um gerandann?

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði hvað hefði orðið um gerandann í málinu: „Íslenska ríkið, lögregluna, saksóknara, dómara, fjölmiðlamenn, þingmenn, ráðherra, kjósendur, Íslendinga, réttarríkið, lýðveldið Ísland sjálft.“ Hann sagði nógu hneykslanlegt að Guðmundar- og Geirfinnsmál hefðu fengið að gerast en viðbrögð stórs hluta samfélagsins hefðu jafnvel verið hneykslanlegri.  „Hryllilegir hlutir gerast á hverjum degi en maður vonar að þegar það gerist þá standi siðmenntuð samfélög í lappirnar og bregðist rétt við.“

„Þetta eru pyntingar. Það er það sem gerðist, í réttarríkinu Ísland,“ sagði Helgi Hrafn og hvatti til samþykktar þingsályktunartillögu um að skipa rannsóknarnefnd um starfshætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hann sagði að þannig væri hægt að segja að Ísland hefði loksins staðið í fæturnar, þó árið væri orðið 2019.

Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að leggja frumvarpið fram. Hún sagði að það væri nauðsynlegt til að bjarga andliti stjórnvalda eftir greinargerð ríkislögmanns vegna málaferla sem vakti hörð viðbrögð. Hún sagðist vona að hægt væri að ljúka málinu með virðingu og sóma en óttaðist að svo væri ekki.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagðist ekki skilja hví ríkisstjórnin hefði ekki fylgst betur með tilurð greinargerðar ríkislögmanns. Hún sagði ekki hægt að bera fyrir sig að slíkt væri ekki gert, því hún vissi fordæmi um slíkt. Hún sagði að viðurkenna ætti skilyrðislaust skaðabótaábyrgð ríkisins. Mikilvæg afsökunarbeiðni hefði verið lögð fram í málinu en nú þyrfti að draga til baka greinargerð ríkislögmanns.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi