Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Frumvarp um táknmál samþykkt

27.05.2011 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Frumvarp menntamálaráðherra um stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins var samþykkt samhljóða sem lög frá Alþingi nú á fjórða tímanum. Gleðidagur og stórsigur fyrir fatlaða sögðu þingmenn og ráðherrar í ræðum sínum.

Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra felur í sér að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfi að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Áratugum saman hafa heyrnarlausir og heyrnarskertir á Íslandi barist fyrir þessu ákvæði en þeir fylltu þingpalla í dag og fögnuðu á táknrænan hátt þegar frumvarpið var samþykkt. Dagurinn í dag er merkilegur í sögu Alþingis og mikill sigur í réttindabaráttu fatlaðra. Því fögnuðu þingmenn, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði að nú væri búið að lögfesta grunninn en nú þyrftu allir að standa saman um að standa vel að framkvæmd þessara laga. Kvaðst hún viss um að svo yrði.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður óskaði íslendingum öllum til hamingju með daginn. „Það er gott að fara inn í helgina með þetta mál og það er gott að fara inn í sumarið og það er gott að fara inn í framtíðina með þetta mál því að mínu mati er þetta mál sem brýtur niður þröskulda og eykur umburðarlyndi og framsýni í samfélaginu.“