Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Frumvarp um staðgöngu afgreitt

25.03.2015 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt og afgreitt frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Samkvæmt frumvarpinu skipar ráðherra þriggja manna nefnd til fjögurra ára í senn sem veitir leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Ekki er vitað hvenær frumvarpið verður tekið á dagskrá Alþingis. 

Þrjú ár frá því tillagan var fyrst lögð fram
Í janúar 2012 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og 22ja annarra þingmanna úr flestum flokkum um að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og hefur það mál verið á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra. Frumvarpið sem stjórnarflokkarnir hafa nú samþykkt að leggja fram er rúmar 90 blaðsíður og hefur að markmiði að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til að tryggja hag og réttindi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu væntanlegra foreldra.

Hvert tilfelli þarf að fara fyrir nefnd
Samkvæmt frumvarpinu má ekki veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni nema sýnt þyki eftir könnun á högum og aðstæðum staðgöngumóður og maka hennar og væntanlegra foreldra, að andleg og líkamleg heilsa, fjárhagsstaða og félagslegar aðstæður þeirra allra séu góðar.

Samkvæmt frumvarpinu skipar ráðherra nefnd til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu vera þrír og jafnmargir til vara. Skal einn nefndarmaður vera lögfræðingur og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar læknir og þriðji sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Hlutverk nefndarinnar er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni.

Ekki er vitað hvenær málið verður sett á dagskrá þingsins en búast má við töluverðum umræðum því þetta er fyrsta frumvarp þessarar tegundar á Alþingi.