Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Frumvarp um náttúrupassa á næstu dögum

26.11.2014 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðherra ferðamála er ekki hlynntur náttúrugjaldi á gistinætur eins og Samtök ferðaþjónustunnar leggja til í stað náttúrupassa en stefnir hins vegar að því að leggja fram frumvarp um náttúrupassa á næstu dögum.

Stjórn samtaka ferðaþjónustunnar skipaði nefnd til að skoða þær leiðir til gjaldtöku sem nefndar hafa verið í tengslum við uppbyggingu og viðhald á ferðamannastöðum. Hún komst að þeirri niðurstöðu að náttúrugjald á gistinætur væri heppilegasta leiðin. Nú þegar er innheimt gistináttagjald

„Það er í raun og veru öðruvísi fyrirkomulag og að mörgu leyti flóknara, það er svona einingagjald. Við viljum tala þarna um náttúrugjald sem innheimtist þá í raun og veru af ferðamanninum í gegnum hótel og gististaði á þennan einfalda hátt, það er að segja lágt gjald á hverja nótt á hvern einstakling,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.

Helga segir að náttúrugjald af þessu tagi sé einfalt í allri framkvæmd og eru það þekkt víða í Evrópu. Það er mun einfaldara en náttúrupassi því þegar hann er annars vegar bera bæði ferðamenn og innheimtumenn ábyrgð.“

„Eins og ég skil tillögur samtaka ferðaþjónustunnar eins og þær birtust í fjölmiðlum í gær þá eru þau að leggja til hækkun á gistináttagjaldi. Okkar niðurstöður hafa sýnt að það þyrfti að hækka það umtalsvert til að ná sömu tekjum og þær sem við erum að áætla af náttúrupassa,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra en ferðamál eru hluti af hennar málaflokki.

Vinna við frumvarp um náttúrupassa er á lokastigi. Verið er að meta kostnað við það í fjármálaráðuneytinu. Bæði ríki og sveitarfélög eiga aðild að honum og einkaaðilum verður frjálst að koma að. Stefnt er að því að hefja innheimtu á haustmánuðum næsta árs. „ Frumvarpið er búið að vera í vændum dálítið lengi við höfum verið að vanda okkur við þetta. Ég vonast til að það komi á allra næstu dögum vonandi fyrir helgi.“