Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Frumvarp um að heimila spilahallir

15.09.2015 - 14:38
OLYMPUS DIGITAL CAMERA         

Ásar og spilapeningar.
 Mynd: John Nyberg - Freeimages
Willum Þór Þórsson og tólf aðrir þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar hafa á ný lagt fram frumvarp um spilahallir en það hefur tvisvar sinnum áður verið lagt fram.

Markmið frumvarpsins er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra og að sú starfsemi fari fram undir opinberu eftirliti og henni verði sett almenn lagaumgjörð.

Segja flutningsmenn að þrátt fyrir ýmis ákvæði almennra hegningarlaga hafi gætt ákveðinnar þversagnar í íslenskum lögum þar sem ýmis fjárhættuspil hafi verið heimiluð á grundvelli sérlaga svo sem happdrætti, lottó, getraunir og spila og söfnunarkassar. Fjárhættuspil hafi fylgt mannkyni um aldir, þau hafi þó tekið breytingum og séu smám saman orðin fjölbreyttari og háþróaðri.

Þar að auki hafa möguleikar almennings til að stunda óheimil fjárhættuspil einnig aukist verulega undanfarin ár, einkum með tölvuvæðingunni. Meðal annars séu auglýstar vefsíður í fjölmiðlum sem bjóða almenningi aðgang að fjárhættuspilum. Þetta séu vefsíður sem alla jafna séu vistaðar utan Íslands og eigi íslensk stjórnvöld þar af leiðandi litla sem enga möguleika á því að hafa eftirlit með þeim eða setja um þær reglur. Því sé erfitt að festa fingur á það hvers eðlis framboð á fjárhættuspilum á Íslandi er og enn fremur hvert umfang þess framboðs er. Gildandi löggjöf hafi þannig gert það að verkum að ákveðin starfsemi hafi þegar verið heimiluð en önnur starfsemi af sama meiði, sem vitað er að þrífst á Íslandi og virðist fara vaxandi, standi utan alls eftirlits í eins konar svartholi.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV