Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frumvarp fyrir land í sókn til bættra kjara

15.12.2017 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að fjárlagafrumvarpið sé fyrir land sem sé í sókn í átt til betri lífskjara. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, segir ekkert tekið á misskiptingu í samfélaginu og frumvarpið sé móðgun við kjósendur.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í morgun og umræða um það stendur nú. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður hefur fylgst með umræðunni og segir að hún hafi verið málefnaleg en líka fyrirsjáanleg þar sem stjórnarliðar verjist og þingmenn stjórnarandstöðu sæki fram og veki athygli á því sem vantar í frumvarpið.

„Þetta fjárlagafrumvarp er fjárlagafrumvarp fyrir land sem er í sókn við erum að sækja fram á grundvelli þessa fjárlagafrumvarps við erum í sókn í átt til bættra lífskjara fyrir alla landsmenn og það er með þeim orðum sem ég legg til virðulegur forseti að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til annarrar umræðu og háttvirtrar fjárlaganefndar og ég ítreka gott samstarf við nefndina sem ég veit að fæst við gríðarlega krefjandi verkefni í mikilli tímaþröng,“ sagði Bjarni.

Ekkert tekið á misskiptingu

„Lítum aðeins á fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur í fyrsta lagi er ekkert tekið á misskiptingu í samfélaginu núna eiga fimm prósent af ríkustu landsmönnunum næstum því jafn mikið af nettó eignum og hin 95 prósentin,“ sagði Ágúst Ólafur.

„Hæstvirtur ráðherra segir að það sé sjálfsagt mál að gefa sér góðan tíma hér í þinginu til að ræða það með hvaða hætti áherslur Sjálfstæðisflokksins birtast í þessu stjórnarsamstarfi með því á hann varla við langan tíma því ekki þarf langan tíma til að fara yfir það hvernig áherslur Sjálfstæðisflokksins birtast í þessu stjórnarsamstarfi,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Hér er einfaldega því haldið fram að fjárlagafurmvarpi og áherslur ríkisstjórnarinnar endurspegli ekki stefnur míns flokks og það er bara einhver upplifun háttvirts þingmanns sem hann verður að lifa með,“ svaraði Bjarni. Þarna tókust þeir fyrrum samherjar á um það hvort stefnu Sjálfstæðisflokksins væri að finna í stjórnarsáttmála og fjárlagafrumvarpi. Umræðan heldur hér áfram í dag og í kvöld því stefnt er að því að ljúka fyrstu umræðu á þessum degi.

Peningum dælt í óbreytt kerfi

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins sem situr í fjárlaganefnd segir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar dæla peningum í óbreytt kerfi í stað þess að reyna að endurskoða kerfið sjálft. „Það er verið að dæla peningum í óbreytt kerfi engar kerfisbreytingar eru boðaðar og ef við tökum sem dæmi heilbrigðiskerfið jú það er vissulega gott að auka þar við og við erum svosem öll sammála um það en það verður að nýta peningana skynsamlega og það verður að endurskoða kerfið sjálft.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir frumvarpið góð fyrstu skref en því hafi aldrei verið haldið fram að hægt væri að leysa allt á fyrsta ári stjórnarsamstarfs. „Þetta fjárlagafrumvarp sem við erum með hér þetta er  auðvitað góð fyrstu skref og það er mjög mikilvægt ég sagði það fyrir kosningar þegar við vorum að leggja ræða það við okkar kjósendur hvað það væri sem við vildum gera að það væri samt sem áður alveg ljóst alveg sama hver tæki við völdum eftir kosningar að það yrði aldrei allt leyst.“ Þess má geta að Bjarkey sem jafnframt er þingflokksformaður Vinstri grænna, er eina konan í níu manna fjárlaganefnd Alþingis. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV