Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frumkvöðull í fuglaljósmyndun

Mynd: Ljósmyndasafn Íslands / Björn / Ljósmyndasafn Íslands

Frumkvöðull í fuglaljósmyndun

06.07.2017 - 10:34

Höfundar

Í ljósmyndasal Þjóðminjasafns Íslands er nú hægt að kynnast ljósmyndum Björns Björnssonar (1889-1977). Björn var áhugaljósmyndari sem myndaði meðal annars fugla og vann að ljósmyndun á Austfjörðum meðfram verslunarstörfum, lengst af á Norðfirði. Á síðari árum sérhæfði Björn sig í náttúrulífsljósmyndun og ferðaðist um landið í þeim tilgangi. Sýningarstjóri sýningarinnar er Kristín Halla Baldvinsdóttir, sérfræðingur á Ljósmyndasafni Íslands.

Birtist í slæðumyndasafni Ríkisins

Fuglarnir, fjörðurinn og landið heitir sýningin í Þjóðminjasafninu, en þó að flestar myndirnar séu frá Austurlandi þá eru þær einnig víðar að. „Þorri fólks þekkir ekki mikið til ljósmynda Björns,“ segir sýningarstjórinn Kristín Halla Baldvinsdóttir, sérfræðingur á Ljósmyndasafni Íslands. „Það er helst að myndir hans hafi birst í tímaritinu Náttúrufræðingnum fyrir afmarkaðan hóp. Síðan voru þær sýndar uppi á veggjum í íslenskum kennslustofum því að myndir hans af fuglum voru notaðar í Fræðslumyndasafni ríkisins á sínum tíma. Það er því helst ákveðin kynslóð fólks sem eitthvað man eftir þeim.“

Myndir Björns af austfirskum byggðarlögum nutu vinsælda. Hér er Neskaupstaður.

Vinsæll í austfirskum stofum

Á sýningunni eru myndir sem ekki hafa birst opinberlega áður en líka myndir sem Björn stækkaði sjálfur á sínum tíma, handlitaði í sumum tilfellum og seldi fólki til að hengja upp í stofunni, ekki síst á Austurlandi.

„Björn var barnmargur maður og duglegur. Hann starfaði sem kaupmaður á Norðfirði lengi vel en flutti síðan suður og helgaði sig eftir það ljósmyndunum, ferðaðist vítt og breitt um landið. Í fuglamyndirnar lagði hann mikinn metnað og við vitum til dæmis að hann lá yfir himbrimahreiðri í þrjár vikur eitt sinn til að ná réttu myndunum,“ segir Kristín.

Kappleikur á Melavellinum og bílaborgin að fæðast.

Merkilegar heimildir um tíðaranda

Áhugamál Björns tók stakkaskiptum árið 1939 þegar hann eignaðist myndavél sem hentaði sérstaklega vel til fuglaljósmyndunar. Björn var þekktur fyrir að spara ekkert til þess að sinna þessari ástríðu sinni, hvort sem um var að ræða ferðamáta, ljósmyndunarbúnað eða tíma. Auk glæsilegra fuglamynda er að finna á sýningunni ýmiskonar mannlífs myndir sem margar hverjar gefa innsýn í fyrri tíð og sögu. Til dæmis má nefna myndir af byggingu Skriðuklausturs, húss Gunnars Gunnarssonar skálds, og magnaða mynd af bílastæði við Melavöllinn þar sem hver lagði eins og hann vildi þegar Skagamenn komu í höfuðstaðinn til að keppa við heimamenn í knattspyrnu.

Sumar fuglamyndanna handlitaði Björn.

Útgáfa samhliða

Eins og verið hefur um undanfarnar ljósmyndasýningar í Þjóðminjasafninu kemur út rit samhliða sýningunni Fuglarnir, fjörðurinn og landið. Auk Kristínar Höllu rita þar texta Smári Geirsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson. Þá ritar Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, formála bókarinnar. Ingunn Jónsdóttir er ristjóri útgáfunnar. 

Sýningin stendur fram í miðjan september en rætt var við sýningarstjórann, Kristínu Höllu Baldvinsdóttur í Tengivagninum.

Björn hafði mikið fyrir Himbrimanum.