Í ljósi sögunnar á Rás 1 rifjaði upp sögu Nagorno-Karabakh, og hins hryllilega stríðs sem Armenar og Aserar háðu um héraðið um þær mundir sem Sovétríkin voru að líða undir lok.
Hlusta má á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Grimmdarverk og morð á almennum borgurum
Deilan hófst 1988 þegar íbúar Nagorno-Karabakh biðluðu til sovéskra stjórnvalda að fá að sameinast Armeníu, en það tók Kreml ekki í mál. Nagorno-Karabakh hefur síðan lýst yfir sjálfstæði, sem ekkert ríki Sameinuðu þjóðanna viðurkennir.
Stríðið um héraðið stóð í sex ár. Að minnsta kosti þrjátíu þúsund manns létu lífið og hundruð þúsunda lentu á hrakhólum, í héraðinu sem og í Armeníu og Aserbaídsjan.
Bæði Armenar og Aserar frömdu svívirðileg ódæðisverk í stríðinu, og myrtu almenna borgara af grimmd — stjórnvöld í Moskvu sömuleiðis.
Árangurslausar friðarviðræður
Stríðinu lauk með vopnahléssamningi 1994 en ítrekaðar tilraunir til að semja endanlega um frið og örlög Nagorno-Karabakh hafa enn engan árangur borið.
Armenía og Aserbaídsjan eru enn í dag erkióvinir og öðru hvoru blossa enn upp átök í héraðinu og á landamærum ríkjanna. Átök vikunnar voru þó með þeim mannskæðustu sem sést hafa frá stríðslokum.
Á meðfylgjandi mynd má sjá 106 ára gamla armenska konu, reiðubúna að verja heimili sitt með AK-47-hríðskotariffli, í þorpinu Degh, í grennd við borgina Goris í suðurhluta Armeníu. Myndin er tekin 1990 og úr myndasafni Sameinuðu þjóðanna.
Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á mánudögum klukkan 14.03.