Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fríkirkjuvegur 11 friðaður

10.07.2012 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fríkirkjuvegur 11 hefur verið friðaður í heild. Mennta-og menningarmálaráðherra hefur að tillögu Húsafriðunarnefndar friðað innra byrði hússins en ytra byrði hússins var friðað í apríl 1978. Núverandi eigandi hússins, Björgólfur Thor, hugðist breyta húsinu talsvert.

Samkvæmt tillögu arkitekt hans, Ásgeirs Ásgeirssonar, stóð meðal annars til að skipta húsinu upp í tvö notkunarrými; íbúð og veislusal. Húsafriðunarnefnd taldi það rýra gildi hússins og vildi friða það að innan. Og hefur mennta-og menningarmálaráðherra fallist á þau rök.

Á vef Húsafriðunarnefndar kemur jafnframt fram að þegar húsið var reist hafi það þótt eitt glæsilegasta íbúðarhús landsins. „Auk fjölmargra atriða sem voru nýlunda á þeim tíma, s.s. vatns- og raflagnir, er innra byrðið vitnisburður um hið besta sem gert var á þessu sviði á fyrri hluta 20. aldar, hvort sem um er að ræða frágang á smíðum eða málun, sem unnin var af fyrstu lærðu íslensku málurunum. Það er því talið að um sé að ræða slíka gersemi að allri gerð, að húsið að Fríkirkjuvegi 11 skuli vera friðað í heild sinni.“